146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er alveg sammála því að blöndunin er mjög mikilvæg. Það hefur sýnt sig einmitt í menningu Breiðholtsins á undanförnum áratugum, en að sjálfsögðu eins og gengur og gerist hefur það þróast og jafnast aðeins eftir því sem árin líða. Það hefði mögulega gerst hraðar ef betur hefði verið hugað að. En núna er oft byrjað á þjónustukjörnunum í hverfunum, þau eru hugsuð sem hverfi þar sem er hægt að sækja þjónustu einhvers staðar nær. Mér finnst í rauninni ekki nægilega vel hugsað um það, það má gera enn betur þar. Ef við myndum byggja annan Grafarvog þá myndum við hugsa um að það væri lítill miðbær hverfisins, ekki bara Spöngin sem þú keyrir í og úr eða eitthvað því um líkt.

Við höfum áður lent í hremmingum með íbúðir og íbúðaskort. Þegar Vestmannaeyjagosið var þá hrúgaðist náttúrlega inn fjöldinn allur af fólki sem vantaði íbúðir, rúmlega 5 þús. manns minnir mig, sem þurfti að flýja á land. Þá voru byggð í snarhasti hverfi hér og þar, Eyjahraunið í Þorlákshöfn t.d., fólk reddaði hlutum með því að rýma til og leyfa fólki að gista inni á sér meðan íbúðir voru byggðar. Það vandamál var leyst. Ég sé ekki að þetta sé vandamál sem við getum ekki leyst. Við getum leyst það einfaldlega bara með því að spýta í lófana og byggja. Það er ekki flóknara en það. Hitt kemur nokkurn veginn af sjálfu sér miðað við þá reynslu sem við ættum að vera búin að verða okkur út um á þeim áratugum sem liðnir eru síðan Breiðholtið var byggt upp.