146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

viðvera umhverfisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrirkomulagið á Alþingi er með þeim hætti að það er ekki algengt að við þingmenn eigum þess kost að eiga orðastað við hæstv. ráðherra. Það eru tveir hálftímar merktir þessum dagskrárlið, óundirbúnar fyrirspurnir. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra var á dagskránni sem ráðherra sem sæti í dag fyrir svörum. Svo berast okkur þær upplýsingar fyrir hádegi að hún verði ekki hér til svara.

Ég vil gera athugasemd við það, virðulegi forseti, því að hér er um að ræða ráðherra sem stendur í eldlínunni akkúrat núna, og ekki síst vegna beiðni formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar um tafarlausa lokun á verksmiðju United Silicon vegna mengunarmála þar suður frá. Það er full ástæða til þess að ráðherra umhverfismála sé þá til svara. Ég spyr hæstv. forseta hvort það séu viðhlítandi skýringar á því að svona sé komið fram við þingið.