146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

viðvera umhverfisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:07]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég óska þess, eins og þeir kollegar mínir sem hér hafa tekið til máls, að fá skýr svör frá hæstv. forseta eða hæstv. ráðherra hverju fjarvera hennar sætir í dag, þar sem málið er brýnt og hvílir þungt á ekki bara íbúum Reykjanesbæjar heldur okkur öllum hinum. Ég er reyndar beggja megin, ég er líka íbúi Reykjanesbæjar og því er mér málið mjög skylt. Ég las það á vef Víkurfrétta í gær að arsenikmengun væri tuttuguföld miðað við það sem leyft er, ég vona að ég fari rétt með tölur. Þetta er krabbameinsvaldandi efni og íbúar hafa skiljanlega miklar áhyggjur.

Ég tek undir með félögum mínum enn og aftur: Hvers vegna er ráðherra ekki hér í dag til að svara spurningum okkar? Hyggst ráðherra bregðast við eins fljótt og auðið er og svara spurningum þingsins varðandi þetta mál?