146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

einkavæðing Keflavíkurflugvallar.

[15:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. ferðamálaráðherra um Keflavíkurflugvöll og uppbyggingu hans. Það er orðið býsna leiðigjarnt þetta kvak frjálshyggjunnar um að allar ríkiseigur sem eru vel reknar og skila þjóðinni bæði arði og ávinningi skuli seldar. Ekki var annað að heyra á hæstv. ráðherra fyrr í mánuðinum en að henni fyndist mikilvægt að selja Keflavíkurflugvöll eða alla vega hluta af honum til einkaaðila. Það er ógeðfelld og skammsýn hugmynd að vilja fela einkaaðila einokun á mikilvægri almannaþjónustu, lífæð ferðaþjónustunnar, líklega ferðafrelsi almennings og jafnvel öryggishlutverki.

Það er heldur ekki beinlínis til að auka á traustið að nú berast fréttir af því að aðkoma erlends banka að kaupum á Búnaðarbanka hafi verið svik eða málamyndagjörningur. Bankinn var sem sagt afhentur þóknanlegum kaupendum. Fyrir utan hversu vond hugmynd það er að selja Keflavíkurflugvöll eða Isavia, þá treysti ég heldur ekki Sjálfstæðisflokknum í ljósi nýjustu atburða til að standa fyrir slíkri sölu.

Í áðurnefndu viðtali bar hæstv. ráðherra því við að almenningur ætti ekki að bera fjárhagslega áhættu af uppbyggingunni í Keflavík. Það er virðingarvert sjónarmið. En er nógu mikil áhætta til staðar til að hugmyndin sé góð? Forstjóri Isavia hefur nefnilega sagt að áhætta ríkisins væri mjög lítil og að uppbygging á flugvellinum væri fjármögnuð með lánsfé og á bak við þá lántöku væri engin ríkisábyrgð. Var hæstv. ráðherra meðvitaður um þessa tilhögun þegar hún lýsti þessu yfir í viðtali? Er ráðherra ósammála forstjóranum um að áhætta ríkisins sé lítil? Hvað er þá rangt í orðum forstjórans og í hverju felst áhættan? Er hæstv. ráðherra með öðrum orðum enn á þeirri skoðun að mikilvægt sé að selja a.m.k. hluta af þessu merkilega fyrirtæki?