146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[15:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er kannski ekki til að hrópa húrra fyrir þó að leiguverð hafi ekki algjörlega elt verðsprengingarnar á fasteignamarkaði hér á höfuðborgarsvæðinu, það hefur hækkað ærið samt. Ég er út af fyrir sig ánægður með að ekki eigi að eyða miklum tíma í mikla skýrslugerð en er kannski minna ánægður með það ef það er útgangspunkturinn að stjórnvöld ætli ekki að leggja efnislega neitt mikið meira af mörkum. Það held ég að hljóti náttúrlega að vera það sem þetta snýst um.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra, úr því að komið er á formlegt samstarf við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem er auðvitað hið besta mál: Hyggst ráðherra með einhverjum hætti efna til sambærilegs samráðs við sveitarfélög á landsbyggðinni, eða fulltrúa þeirra? Þar er líka víða um skort að ræða en af allt öðrum ástæðum en þeim sem við þekkjum hér. Ég held að ekki síður sé ástæða til að efna til einhvers konar samskipta við þau sveitarfélög sem glíma við húsnæðisvanda en af allt öðrum ástæðum en þeim sem aðallega hrjá menn á þessu landshorni. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra kemur kannski einhverju að um það í seinna svari sínu.