146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

aðgerðir í húsnæðismálum.

[15:31]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Forseti. Það er blessunarlega svo að stjórnvöld þurfa ekki alltaf að puðra út milljörðum til að styðja við uppbyggingu á fasteignamarkaði og margt af því sem ítrekað hefur verið bent á eru einmitt þær hindranir sem settar hafa verið hvað varðar húsbyggingar af hálfu sömu stjórnvalda. Þar vantar að bæta skipulagslöggjöf. Þar vantar að horfa til þess með hvaða hætti hægt er að örva byggingu lítilla íbúða sem lítið hefur orðið úr. Þrátt fyrir áralanga umræðu um þörfina sjáum við einfaldlega að ekkert framboð er af slíkum íbúðum. Það snýr að verðlagningu lóða, reglum sem að því lúta. Það snýr að einhverju marki að byggingarreglugerð, þeim sveigjanleika sem þar er til uppbyggingar á litlu húsnæði. Þetta eru allt saman þættir sem við erum að skoða til að bæta úr.

Varðandi spurninguna um uppbyggingu á landsbyggðinni er ég vel meðvitaður um þann vanda sem þar er við að glíma. Það er eitt af því sem við erum að horfa til, hvernig hægt er að styðja sérstaklega við sveitarfélögin úti á landi sem glíma við þetta misræmi á milli kostnaðarverðs og markaðsverðs húsnæðis á svæðinu.