146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga .

[15:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og áréttinguna. Ég mundi kalla það brýninguna og upprifjunina á stefnu Bjartrar framtíðar. Ég stend fullkomlega við þá stefnu. Ég stend fullkomlega við það að vilja miklu minni greiðsluþátttöku, eins og þar kemur fram og mun gera mitt besta til þess að koma því til verka eins og ég mögulega get komist til í hlutverki mínu sem ráðherra.

Nú hef ég gegnt embætti ráðherra í rúma tvo mánuði og í þeim störfum starfað eftir fjárlögum fyrir árið 2017 sem samþykkt voru af Alþingi Íslendinga áður en þessi ríkisstjórn tók við. Þar er vissulega gert ráð fyrir auknum framlögum til þess að minnka heildargreiðsluþátttöku fólks samfara upptöku á nýju greiðsluþátttökukerfi sjúklinga núna í maí, en því miður er alveg rétt að tannlækningar eru enn þá að miklu leyti fyrir utan greiðsluþátttökukerfið í íslensku heilbrigðiskerfi. Það er miður. Ég er mjög meðvitaður um þann ágalla í kerfinu og hef oft tjáð mig um það, bæði eftir að ég varð ráðherra og áður, að ég myndi vilja sjá það breytast. Ég hef ekki verið í aðstöðu til þess að breyta því þær vikur sem ég hef gegnt ráðherraembætti. En þetta er eitt af því sem ég mun vissulega beita mér fyrir.

Varðandi umfjöllun Morgunblaðsins. Það er góð umfjöllun. Það er kannski mikið sagt að ráðherra hafi sérstaklega ekki gefið kost á viðtali heldur komst ég hreinlega ekki til þess að veita viðtal í málinu þar sem ég var upptekinn á fundi, ef ég man rétt, með framkvæmdastjórum heilbrigðisstofnana (Forseti hringir.) úti á landi þegar verið var að vinna greinina.