146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga .

[15:37]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svar hans. Það er að sjálfsögðu rétt hjá ráðherra, það getur verið snúið að komast í fé þegar fjárlögum hefur verið lokað. En fjárlögin voru samþykkt og ætlunin var að ný ríkisstjórn setti mark sitt á þau. Það er spurning hverjar áherslur Bjartrar framtíðar eru í þeirri vinnu.

Hæstv. ráðherra veit það manna best að ef viljinn er fyrir hendi er ýmislegt hægt. Ég vil benda hæstv. heilbrigðisráðherra á að ráðherra vegamála fann 1.200 milljónir aukalega í samgöngubætur. Þá vil ég spyrja: Telur heilbrigðisráðherra útilokað að sambærileg upphæð kunni að finnast í fjármálaráðuneytinu ef vel er leitað svo létta megi öldruðum lífið?