146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Þessi ráðherra er vel kunnugur því að skoða vandræði í fjárlögum. Ríkisstjórnin samþykkti og fól heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra sérstaklega að skoða það hvernig finna mætti leiðir til þess að fylla upp í tilfinnanlegan skort þegar kom að fjármögnun lyfja. Sú vinna er í gangi. Það er eitt af þeim verkefnum sem eru á mínu borði.

Eins og þingmaðurinn minnist á eru 1.200 milljónir vissulega meira en enginn peningur, en í heilbrigðiskerfinu erum við að skoða 200 milljarða sem verið er að vinna með á mjög breiðu og stóru sviði. Víða kreppir skórinn. (Forseti hringir.) Ég reyni að vinna frekar heildstætt á málunum heldur en ég sé að hlaupa til í öllum (Forseti hringir.) málum. En aðalatriðið varðandi tannlækningarnar er að ég vil gera betur og (Forseti hringir.) við reynum að gera eins vel sameiginlega og við mögulega getum.