146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

kostnaðarþátttaka sjúklinga vegna sérfræðiþjónustu.

[15:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir svarið. Það er enda í anda þess sem ég vonaðist til að fá. Ég hef fullan skilning á því, þrátt fyrir töluverða umfjöllun í fjölmiðlum síðasta árið, ef ég man rétt, um hinn svokallaða bleika skatt sem virðist detta á hinar ótrúlegustu vörur, svo lengi sem einhverjar líkur er á að konur eða stúlkur noti þær umfram karla eða pilta, að það þarf töluvert hugmyndaflug til að ímynda sér að bleiki liturinn sé að ryðja sér til rúms í heilbrigðiskerfinu eins og þessar tölur benda til. Ég get því ekki annað en fagnað því að hæstv. ráðherra ætli að taka þetta upp og býð fram aðstoð mína við að sýna honum þessar tölur sem ég hef verið að glöggva mig á.