146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[15:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa gríðarlega mikilvægu umræðu og vil hér í upphafi máls míns segja að sjálfsákvörðunarréttur hverrar konu yfir eigin líkama er grundvallaratriði, þar með talið hvort og þá hvenær kona kýs að eignast börn. Þannig er það ekki í núgildandi löggjöf. Því þarf að breyta.

Ég fagna því skýrslu starfshóps sem hér hefur verið vísað til, sem unnið hefur að heildarendurskoðun á lögunum frá 1975. Mér finnst að þar sé vel tekið utan um málið og tillögurnar sem settar eru fram þar séu skýrar og vel rökstuddar. Þá langar mig að fagna því alveg sérstaklega að nefndin tekur fram að hún hafði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til hliðsjónar við vinnu sína. Það er nákvæmlega þannig sem vinna þarf öll mál því að þá fer samningurinn að virka.

Því tengt eru tímamörk varðandi þungunarrof, annars vegar um alveg frjálst val fram til 22. viku og hins vegar settur upp valkostur, sem nefndin telur síðri, sem snýst um úrskurðarnefnd eftir 16. viku. Í tengslum við það, vegna þess að það á eftir að verða stór umræða um þetta bæði á Alþingi og í samfélaginu, langar mig að beina því til hæstv. heilbrigðisráðherra og spyrja hvort heilbrigðisyfirvöld hafi mótað stefnu varðandi fósturskimanir og fósturgreiningar. Hvert er markmiðið með slíkum skimunum? Það þarf að liggja fyrir þegar við ræðum málin í heild sinni.

Að lokum (Forseti hringir.) vil ég ítreka það og segja að það er sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama sem er grundvallaratriðið og á að vera það.