146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:09]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Með leyfi forseta langar mig að vitna í 216. gr. almennra hegningarlaga:

„Kvenmaður, sem deyðir fóstur sitt, skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Ef sérstaklega ríkar málsbætur eru fyrir hendi, má ákveða, að refsing falli niður. Mál skal ekki höfða, ef 2 ár eru liðin frá því að brot var framið. Ónothæf tilraun er refsilaus.

Hver, sem með samþykki móður deyðir fóstur hennar eða ljær henni lið sitt til fóstureyðingar, skal sæta fangelsi allt að 4 árum.“

Í almennum hegningarlögum er fóstureyðing glæpur. Við erum ekki búin að stíga það skref að afnema ákvæðið og fella það brott úr almennum hegningarlögum.

Hv. þm. Logi Einarsson sagði að skilgreining á fóstri væri sú að fram að 12. eða 16. viku væri það einungis frumuklasi. Í greinargerð með frumvarpi til almennra hegningarlaga frá 1940 stendur um 216. gr., með leyfi forseta:

„En fósturástand telst byrjað, þegar frjóvgun hefir átt sér stað.“

Við erum með úrelt lög þegar kemur að refsingu og hugmyndum um hvað sé rétt og hvað rangt þegar kemur að kynfrelsi kvenna og fólks. Það endurspeglast í almennum hegningarlögum sem eru úr sér gengin, lögum sem eru allt of gömul. Mikið af þessum lagabókstaf byggist á 19. aldar lagatexta, hin sértæku almennu hegningarlög sem og hin almennu. Mér þykir mjög alvarlegt þegar við stöndum frammi fyrir því að borgarinn les almenn hegningarlög lands síns og sér að fóstureyðingar eru í raun og veru bannaðar, að þær varði við fangelsisvist. Einu breytingarnar sem hafa orðið á þessari klausu eru frá 1998 þegar orðið „varðhald“ var fellt úr gildi.

Virðulegi forseti. Það er kominn tími til að við fellum þessa grein úr gildi sem fyrst. Ég hugsa að sérlögin um fóstureyðingar og kynheilbrigði (Forseti hringir.) séu alveg nóg. Þetta er lítil aðgerð sem væri hægt að fara í strax og meira en kominn tími til.