146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:11]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa sérstöku umræðu. Ég vil líta á skýrsluna og umræðuna í kjölfar hennar sem jafnréttismál og þar með sagt mikilvægt jafnréttismál. Ég vil vitna í orð Vilmundar Jónssonar sem var landlæknir árið 1934 þegar hann sagði, ótrúlegt en satt, árið 1934, með leyfi forseta:

„Mundi ég fyrir mitt leyti jafnvel geta fallist á þá löggjöf um fóstureyðingar, er þeir heimta, sem lengst vilja ganga og láta konur með öllu sjálfráða um, hvort þær vilja verða mæður eða ekki.“

Margt og mikið í skýrslunni þarf ekki eingöngu umræðu hér í þessum þingsal og innan heilbrigðiskerfisins heldur í samfélaginu almennt. Eitt sem ég tel vera mjög mikilvægt er umræða um kynheilbrigði. Mikilvægt er að við viðurkennum rétt fólks til kynheilbrigðis og frjósemisheilbrigðis sem á mannamáli þýðir í rauninni rétt hvers og eins til að njóta kynlífs. Ég tel að við eigum einnig að líta á umræður um kynheilbrigði sem forvörn.

Í skýrslunni er sagt, með leyfi forseta:

„Einstaklingurinn geti notið einkalífs er viðkemur kynlífi hans. Hann búi við sjálfræði, heilindi og öryggi varðandi eigin líkama. Hann hafi frelsi til að tengjast öðrum kynferðislega og geti óhindrað tjáð sínar kynferðislegu tilfinningar. Hann eigi rétt á alhliða kynfræðslu. Jafnframt að hann hafi möguleika á því að taka óþvingaðar ákvarðanir um barneignir og takmörkun þeirra. Hann hafi aðgang að upplýsingum sem byggjast á gagnreyndri þekkingu og hafi aðgengi að kynheilbrigðisþjónustu“

Ég kem meira inn á þetta á eftir.