146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:20]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Konur eiga að ráða eigin líkama. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna á ekki að verða óþarfri forræðishyggju að bráð. Löggjöf okkar á að endurspegla þessi meginsjónarmið líkt og nefndin leggur til í tillögum sínum. Rof þungunar eða þungunarrof, eins og nefndin leggur til að komi í stað orðsins fóstureyðingar, á með réttu að vera ákvörðun konunnar einnar. Orðanotkun skiptir máli þegar rætt er um þessi mál og orðið þungunarrof er hlutlaust og mun betra en fóstureyðing. Hér skal tekið undir þau sjónarmið að það eigi fyrst og fremst að ráða för við breytingar á lögum að endurspegla nýja sýn á rétt kvenna og sjálfsforræði. Konur eiga að hafa skýlausan rétt til að taka ákvörðun um eigin líkama og eigin framtíð og til þess þarf aðgangur að öruggu þungunarrofi að vera greiður og óhindraður nema sérstakar og brýnar læknisfræðilegar aðstæður standi því í vegi.

Ákvörðun um að grípa til þungunarrofs er ekki léttvæg. Fyrir því geta verið margar ástæður. Það fyrirkomulag sem við búum við í dag, að sérstök úrskurðarnefnd komi til skjalanna þegar kona vill þungunarrof, er gagnstætt viðhorfum um vald kvenna til að taka sjálfar ákvörðun um eigin líkama. Því er löngu tímabært að breyta. Það er ekki í samræmi við nútímann og frjálslynd viðhorf að konur þurfi að sæta því að verða að réttlæta ákvörðun sína fyrir nefnd fólks sem oft og tíðum þekkir ekki til aðstæðna og getur haft uppi sjónarmið sem eru gagnstæð vilja og ákvörðunarrétti konunnar. Tillögur nefndarinnar um að leggja úrskurðarnefndina niður eru því mjög til bóta.

Að lokum er ástæða til að þakka þeim sem að þessum tillögum standa fyrir vandaða vinnu og hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að leggja tillögur fyrir Alþingi sem taka ríkulegt mið af þeim.