146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:23]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Við fengum dágóða kynningu á skýrslunni í velferðarnefnd. Það var annað sem vakti sérstaka athygli mína sem ég tel að við eigum einnig að ræða opinskátt og það er aðgengi að getnaðarvörnum og ráðgjöf.

Í skýrslunni kom fram að ákveðinn hópur í samfélaginu á erfiðara með að nálgast og nota getnaðarvarnir. Þar má nefna unglingsstúlkur, konur sem dvelja við erfiðar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður, einnig konur sem eiga við geðræn vandamál eða andlega fötlun að stríða. Ég tel með tilliti til þeirrar umræðu sem verið hefur um fátækt að við eigum sérstaklega að huga að þessum hópum. Mikilvægt er að áhersla verði lögð á gæði ráðgjafar og fræðslu um getnaðarvarnir. Við eigum að vera meðvituð um að ef ráðgjöf um getnaðarvarnir er af takmörkuðum gæðum verður það til þess að konur hætta að nota sumar tegundir af getnaðarvörnum sem auðvitað eykur líkur á því sem skýrt er sem óráðgerð þungun og áhætta við kynsjúkdómasmit.

Mikilvægt er að ráðgjöfin byggist á samráði og að kona fái í samráðinu fullnægjandi upplýsingar til að hún geti sjálf tekið ákvörðun um sína getnaðarvörn.

Ég fagna sérstaklega þeirri tillögu sem er lögð fram í skýrslunni, með leyfi forseta, um „að fagráð um kynheilbrigði verði stofnað sem starfi innan embættis landlæknis. Hlutverk þess sé að halda utan um málaflokkinn kynheilbrigði“.

Einnig:

„Gerð verði úttekt á kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Fagráð um kynheilbrigði fari yfir heildstætt kynfræðsluefni og gæti þess að það uppfylli gæðavísa áður en það er nýtt í fræðsluskyni.

Fagráð um kynheilbrigði sjái til þess að haldin séu regluleg námskeið fyrir þá kennara og aðra í skólum landsins sem sinna kynfræðslunni.

Fagráð um kynheilbrigði gæti þess að kynfræðsla nái til unglinga og ungs fólks sem dottið hefur úr námi.“ (Forseti hringir.)

Enn og aftur, hópar sem þarf sérstaklega að hlúa að.