146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

þungunarrof og kynfrelsi kvenna.

[16:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir mjög góða umræðu, þá fyrstu af mörgum, vona ég.

Til þess að svara strax þeim spurningum sem til mín var beint í síðustu ræðu hv. málshefjanda finnst mér alveg vel koma til greina að ganga einhverja skemmri skírn með að afnema þau lög sem taka sjálfsákvörðunarrétt fatlaðra kvenna af þeim þegar kemur að ófrjósemisaðgerðum. Ég verð að segja að mér eins og langflestum finnst þyngra en tárum taki þær upplýsingar sem við höfum fengið um ófrjósemisaðgerðir sem hafa verið gerðar að fólki forspurðu hingað til.

Sú staða að ekki séu þekktar upplýsingar um það á hverjum ófrjósemisaðgerðir voru gerðar eftir árið 1975 þykir mér mjög miður. Ég hef aðeins borið mig eftir því að fá þær upplýsingar en er ekki viss um að þær séu aðgengilegar, hreinlega vegna þess að skráningu var ábótavant á þessu tímabili. En vissulega mun ég halda áfram að reyna að komast að því.

Ég vil taka undir með flestum ef ekki öllum sem hafa tekið til máls í dag að sjálfsákvörðunarréttur kvenna er ákveðið grunnstef í þessari vinnu. Það er ekki verk eins karls sem vill svo til að er heilbrigðisráðherra að taka ákvarðanir um þennan mikilvæga málaflokk. Þess vegna vil ég að vinnan og undirbúningur löggjafar sé sem opnust, það sé gert með því að taka tillit til vinnu nefndarinnar, athugasemda sem borist hafa, með því að væntanleg löggjöf verði kynnt og kallað eftir athugasemdum áður en hún kemur til þingsins o.s.frv. Og sérstaklega í ljósi sögunnar þegar kemur að sögu ófrjósemisaðgerða sem við höfum verið að fá fréttir af því miður aftur og aftur þá finnst mér mjög mikilvægt að við horfum til þess að (Forseti hringir.) mannréttindasamningur um réttindi fatlaðs fólks verði í hvívetna hafður í forgrunni í þessari vinnu. — Ég þakka fyrir góða umræðu.