146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[16:32]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er þakklátur fyrir að fá að taka til máls hér í dag og fjalla um þetta efni sem snertir okkur öll og hæstv. ráðherra fyrir að vera hér með okkur og taka einnig þátt.

Við Íslendingar erum ung þjóð, yngsta Norðurlandaþjóðin með fæsta eldri borgara í okkar röðum. En þrátt fyrir þetta hefur engin þjóðanna verið jafn áköf í stofnanavæðingu í öldrunarþjónustu og Íslendingar. Allt fram á þennan dag hefur sú ofurtrú verið áberandi að stofnanavistun sé besta lausnin fyrir flesta. Um þessa ósveigjanlegu, róttæku og dýru leið hafa æ fleiri efasemdir. Nærri 9% eldri borgara búa á sérbúnum stofnunum hér á landi og fjórðungur þeirra sem eru yfir áttrætt. Þetta er hærra hlutfall en tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar sem virkja í mun ríkara mæli fjölbreyttari og sveigjanlegri úrræði. Hér þrífst enn rótgróin stofnanamenning.

Er óbreytt fyrirkomulag það sem ný kynslóð eldri borgara kýs helst? Við þurfum að tryggja af alúð hjúkrun og umönnun þegar líður að lokum og heilsan bregst. Hefðbundnar stofnanir þar sem eldra fólki er búinn samastaður í árafjöld eru hins vegar á undanhaldi. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann deili þessari skoðun með þorra heilbrigðisstétta. Og í hve miklum mæli hefur kostnaðarþátturinn við stofnanarekstur verið veginn á móti öðrum valkostum?

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum gefið þessum málum gaum en við stöndum engu að síður langt að baki nágrannaþjóðum okkar á mikilvægum sviðum. Ástæðurnar eru eflaust margar. Hluti vandans er stjórnsýslulegur. Ég nefni tvennt, málaflokkurinn heyrir undir tvo ráðherra og félagsleg þjónusta við aldraða er í meginatriðum á hendi sveitarfélaga en heilbrigðisþátturinn á hendi ríkisins. Ábyrgðinni er þannig kastað á dreif og ekki víst að leiðir og lausnir verði árangursríkar og markvissar.

Mun hæstv. ráðherra beita sér að einhverju leyti fyrir breytingum á þessu sviði? Við stöndum á þröskuldi nýrra tíma. Stórir aldurshópar eru að hverfa á eftirlaun, upplýst og menntað fólk sem á sér mörg ár ólifuð, langflestir með virkri þátttöku í samfélaginu, við góða heilsu, vilja til starfa eftir getu og áhuga. Hin unga tápmikla þjóð er í heild að eldast sem mun til lengri tíma litið hafa áhrif á allt gangverk samfélagsins. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þessi þróun hugleikin honum og með hvaða hætti er unnið með málefnin í ráðuneytinu?

Einstaklingum eldri en 80 ára mun fjölga, glíman við heilabilun er stór áskorun, breyttar sjúkdómasamsetningar blasa við, nýir meðferðarmöguleikar þróast, við horfum fram á breyttar kröfur og væntingar. Sviðið mun stækka með öflugum hópum sem hafa þekkingu og skoðanir á sínum högum og mynda öfluga þrýstihópa. Þetta er allt að gerast, eldri borgarar eru að verða meðvitaðri, eru að valdeflast.

Lýðfræðileg þróun er í eina átt, það er ekki víst að vinnufúsum höndum til starfa í þágu þeirra sem þarfnast aðstoðar fjölgi. Það er eins líklegt að við munum búa við skort á vinnuafli í náinni framtíð og ólíklegt er að fjölskyldan gegni áfram því lykilhlutverki sem við höfum átt að venjast.

Áskoranirnar eru margar og tækifærin líka. Nýjar lausnir, ný tækni, nýjar aðferðir og ný hugsun getur hjálpa okkur. Þjónustan er fjölbreytileg og þarf að vera það. Í dag er hún brotakennd og á margra höndum. Við þurfum að efla enn frekar notendasamráð við hina öldruðu sjálfa en um leið að styrkja rammann utan um stjórnun, þverfaglega nálgun og menntun í málaflokknum og tryggja að þeir sem eru í mestri þörf njóti fyllsta öryggis.

Eldri borgarar vilja njóta sjálfstæðis og hafa forræði yfir sínum málum svo lengi sem kostur er. Þeir vilja hafa aðgang að vinnumarkaði á hvetjandi forsendum. Um þetta erum við sammála í orði en á borði vantar nokkuð upp á. Farsæl öldrun er kappsmál okkar allra. Við getum miklu ráðið hvernig til tekst með tímanlegum og fyrirbyggjandi ráðstöfunum. Vísbendingar um það komu m.a. fram í nýlegri greiningu á högum og líðan aldraðra á Íslandi sem kynnt var í lok síðasta árs. Til er á Íslandi fullbúið módel og leiðarkerfi sem fagfólk vill hrinda í framkvæmd sem er fjölþætt heilsurækt aldraðra í samstarfi við sveitarfélög og hefur það að langtíma- og viðvarandi markmiði að móta heilsueflandi samfélög.

En kostnaður við að hrinda hugmyndinni í framkvæmd stendur verkefninu sennilega fyrir þrifum. Ég spyr því ráðherra hvort hann muni styðja við slíka langtímahugsun í samstarfi við sveitarfélög með því að veita fé í slík verkefni.

Virðulegur forseti. Í september sl. skilaði samstarfsnefnd ýmissa hagsmunaaðila greinargerð til þáverandi velferðarráðherra, Eyglóar Harðardóttur, sem nefnist Mótun stefnu í þjónustu við aldraða til næstu ára þar sem tekið er á 11 skilgreindum þáttum eins og t.d. almannatryggingakerfinu, heilsueflingu, rétti aldraðra til sjálfstæðrar búsetu og sjálfræðis, gæðum og gæðaviðmiðunum, heilabilun og réttindagæslu.

Ég leyfi mér að lokum að spyrja hæstv. ráðherra hvort unnið sé í ráðuneytinu á grundvelli þessarar skýrslu og hvar á vegi vinnan sé stödd.