146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[16:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við sem þjóð erum að eldast. Við þurfum að taka mið af því þegar við skipuleggjum samfélag okkar. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Guðjóni Brjánssyni, fyrir þessa umræðu því að framtíðarstefna og framtíðarsýn er bráðnauðsynleg. Líkt og kom fram í framsögu málshefjanda þurfum við að koma við á ýmsum stöðum þegar við fjöllum um kjör eldra fólks og lífsaðstæður. Það endurspeglaðist einnig í svari hæstv. ráðherra, því að eldra fólk er auðvitað ekkert öðruvísi en annað fólk, það lifir ekki í einhvers konar boxi heldur er það partur af samfélaginu. Þess vegna væri hægt að taka ýmsar ræður við þetta tilefni.

Mig langar að nota tíma minn til að fjalla um húsnæðismál og aðgengileika húsnæðis. Það er svo að á að giska 10% íbúðarhúsnæðis í dag er aðgengilegt og ef ekki verður gert átak og séð til þess að þær nýju byggingar sem byggðar eru séu aðgengilegar þá horfir til verulegra vandræða í framtíðinni. Aðgengi snýst nefnilega ekki aðeins um að notendur hjólastóla komist um heldur ekki síður um að eldra fólk, t.d. með gönguhjálpartæki, komist um og geti búið heima hjá sér. Það er það sem hæstv. ráðherra talaði um, samstillta og heildræna aðstoð heim. Það mun hins vegar alltaf þurfa líka dvalar- og hjúkrunarheimili, því að það er fullt af fólki sem mun þurfa meiri þjónustu og meira öryggi en svo að það geti búið heima hjá sér. Þetta er hins vegar dýrara. Þess vegna er það samfélagslega hagkvæmt að þeir sem geta búið heima hjá sér geti athafnað sig þar (Forseti hringir.) þrátt fyrir að skrokkurinn kalli á aukin hjálpartæki. Þess vegna finnst mér mikilvægt að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hafi þennan þátt, þ.e. standi vörð um byggingarreglugerð þegar kemur að málum eldra fólks.