146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[16:45]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir umræðuna. Það er rétt sem fram kemur hjá framsögumanni að stór hópur af vel upplýstu og menntuðu fólki er að hverfa á eftirlaun en vill starfa áfram. Ég hef áður bent á kennara úr þessum ræðustól í sambærilegum umræðum, þegar reynslumestu og oft bestu kennararnir hætta kennslu langt fyrir aldur fram sökum aldurs. Atvinnulífið kallar eftir atvinnuþátttöku eldri borgara. Í því ljósi þarf að hækka frítekjumark atvinnutekna, eins og ritað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. Heilsa og heilbrigði eldri borgara er í takt við framkomnar hugmyndir dr. Janusar Guðlaugssonar, eiga að taka við af ákafri stofnanavæðingu sem margir hafa ofurtrú á á Íslandi. Vinaþjóðir okkar annars staðar á Norðurlöndum hafa lagt alla áherslu á heilsu og heilbrigði, stóraukna heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu á heimilum þar sem nútímatækni tekur við af byggingum stofnana og steinkumbalda. Ekki það að enn þarf að byggja hjúkrunarheimili á Íslandi, en við verðum að líta til annarra kosta með heilsu og heilbrigði að leiðarljósi, þar sem tölvueftirlit, eftirlit með vatnsnotkun, rafmagni, teppi sem nemur hreyfingar, geta gert mikið gagn.

Virðulegi forseti. Höfum aldraða með í ráðum. Þeir hafa reynsluna af öldrun og stöðu sinni. Væntingar samfélagsins til aldraðra er að þeir verði áfram virkir borgarar og leggi sitt af mörkum til samfélagsins sem þeir hafa byggt upp og afhent okkur. Það vilja allir verða gamlir en enginn vera gamall.

Virðulegi forseti. Gerum allt til þess að líf eldri borgara verði æviskeið framlags og gleði til lífsins.