146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[16:54]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér á sér stað mikilvæg umræða um hvernig við búum að þeim sem flestir hafa slitið sér út fyrir samfélagið. Þetta er þjónusta sem var talsvert til umræðu fyrir kosningar þar sem allir flokkar lofuðu stórkostlegri uppbyggingu kæmust þeir til valda. Hæstv. heilbrigðisráðherra er æðsti maður málaflokksins og ég freista þess enn einu sinni að heyra hvernig hann hyggst fullfjármagna málaflokkinn. Honum er væntanlega ljóst að hann er vanfjármagnaður af ríkinu svo milljörðum skiptir. Mörg sveitarfélög erfiða mjög mikið vegna þess. Þau neyðast til að taka fé úr öðrum mikilvægum verkefnum til að halda rekstrinum gangandi, fjármuni sem ríkinu ber réttilega að greiða. Við erum að tala um fé úr skólum, frá fötluðum, af íþrótta- og tómstundamálum, menningu og listum.

Afleiðingarnar eru verri lífsgæði íbúa og minni möguleikar sveitarfélaga til að laða til sín og halda í ungar og kraftmiklar fjölskyldur sem eru byggðarlögunum lífsnauðsynlegar.

Nú hefur ráðherra áður komið hingað í ræðustól og vísað til rammasamnings upp á 1,5 milljarða sem var gerður við rekstraraðila öldrunarheimila og var fyrsta skrefið í átt að réttlætinu. Ég nenni því ekki að hlusta á hæstv. ráðherra nefna það aftur. Ég vil fá að vita hvernig verður staðið við fullfjármögnun þessarar þjónustu af hálfu ríkisins og hvenær það verður gert. Í guðs bænum, hæstv. ráðherra, ekki vitna aftur til laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þar sem ríkið tók yfir hluta af lífeyrisskuldbindingum sveitarfélaga því ráðherra veit jafn vel og ég að sveitarfélög koma með mjög ólíkum hætti að rekstri öldrunarstofnana. Með núverandi fyrirkomulagi, núverandi vanfjármögnun, er einfaldlega verið að mismuna sveitarfélögum. Varla vill ráðherra að viðkomandi sveitarfélög skili þjónustunni eða rýri svo reksturinn að það bitni á gamla fólkinu? Nú verður ríkisstjórnin einfaldlega að finna leiðir til að tryggja fjármagn í þessu góðæri sem er í landinu.