146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[17:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er flókið að verða eldri. Ég átti orðastað við nokkra hæstv. kjósendur fyrir kosningar og festust í haus mér tvær sögur sérstaklega. Önnur var að hjón ákváðu að selja sumarbústað eftir að þau voru komin á eftirlaun. Það núllaði í rauninni út tekjulífeyri þeirra hjá Tryggingastofnun af því að arður þeirra af sölunni var tekinn sem tekjur. Ef þau hefðu bara verið svo forsjál að selja sumarbústaðinn áður en þau fóru á ellilífeyri þá hefðu þau átt þetta inni á bankabók og þá hefðu bara fjármagnstekjurnar komið til skerðingar. Það er svona sem er flókið. Af hverju gerist þetta öðruvísi eftir að maður fer á ellilífeyri heldur en áður en maður fer á ellilífeyri?

Annar hæstv. kjósandi talaði um að hún hefði átt skuldlausa íbúð þangað til hún fór á ellilífeyri, en eftir það varð lífið aðeins flóknara og hún þurfti m.a. að taka lán út á húsið fyrir lyfjum. Þetta er sorglegra en tárum taki eiginlega að það skuli verða svona skringileg breyting allt í einu á þessum árum og maður geti ekki haldið áfram svipuðu lífi, jafnvel þótt maður sé í það góðri aðstöðu að eiga skuldlaust húsnæði.

Það er fleira sem er mjög skrýtið og ósanngjarnt í þessu. Tökum sem dæmi einhvern sem hefur greitt alla ævi í lífeyrissjóð af lágmarkslaunum á móti þeim sem hefur verið í þeirri aðstöðu að greiða aldrei í lífeyri, jafnvel bara út af einhverjum einkennilegum ástæðum. Lífeyrir þessara tveggja einstaklinga er sá hinn sami. Sá sem greiddi í lífeyrissjóð alla sína ævi og hefði annars getað sett það á bankabók og hinn sem greiddi aldrei neinn lífeyri og (Forseti hringir.) fá sama ellilífeyri að lokum. Það eru mörg dæmi um undarlegan (Forseti hringir.) kerfisgalla sem ég held við þurfum að rýna mjög vel. Kerfin eru flókin. Það er mjög (Forseti hringir.) erfitt að rýna í það hvaða réttindi við höfum.