146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[17:06]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og fleiri, þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir góða umræðu og hæstv. ráðherra fyrir hans svör og hlakka til að heyra fleiri svör frá honum eftir skamma stund.

Mig langar til að grípa niður í og undirstrika nokkur atriði sem þegar hafa komið fram í umræðunni í dag, sérstaklega það sem hv. þm. Theodóra Þorsteinsdóttir nefndi hér áðan varðandi mikilvægi þess að sveitarfélögin móti sér lýðheilsustefnu. Hún nefndi nokkur sveitarfélög sem hafa nú þegar farið þá leið. Það er vel og vona ég að enn fleiri fylgi í kjölfarið.

Hæstv. ráðherra nefndi hér heilsueflandi samfélög, að það verkefni næði til 73% landsmanna. Ég er mjög ánægð með það vegna þess að þegar slík verkefni fara af stað vekur það umræðu og aukna meðvitund um mikilvægi þess hversu mikil ábyrgð okkar sjálfra er á eigin heilsu, hvað við getum gert sjálf til þess að passa upp á heilsu okkar og eiga þá ekki bara lengra líf heldur betra líf á meðan við erum hér á jörðu.

Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra út í annað. Hann talaði áðan um áherslu á heimaþjónustu. Í sveitarfélaginu í Ölfusi hefur farið fram mjög gott starf varðandi heimaþjónustu sem sveitarfélagið hefur átt frumkvæði að og kostað að stórum hluta. Forveri hæstv. ráðherra hafði áhuga á því verkefni og beitti sér að nokkru leyti í því. Ég vil spyrja hæstv. núverandi ráðherra hvort hann muni fylgja því eftir og mögulega hvort það verkefni verði fyrirmynd annarra sveitarfélaga sem vilja fara sömu leið.

Tími minn er á þrotum. Mig langar að spyrja að lokum um lokun Kumbaravogs. Það er mikil vöntun á hjúkrunarrýmum á Suðurlandi, eins og hæstv. ráðherra veit. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að hjúkrunarrýmum í nýju hjúkrunarheimili (Forseti hringir.) í Árborg muni fjölga til þess að mæta þeirri þörf sem nú hefur orðið til? Ég vil (Forseti hringir.) á sama tíma gagnrýna tímaáætlunina varðandi lokun Kumbaravogs annars (Forseti hringir.) vegar og uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Selfoss hins vegar, að ekki skuli hafa verið (Forseti hringir.) komið í veg fyrir að gat myndaðist. Það er miður.