146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.

[17:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Herra forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir mjög góða umræðu. Hér hafa hv. þingmenn hver á fætur öðrum komið með mjög mikilvæg innlegg og innsýn í umræðuna og málaflokkinn. Núna liggja fyrir tillögur starfshóps á vegum velferðarráðuneytisins um stefnumótun í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða sem voru kynntar á dögunum. Meðal þess sem þar er lagt til er stóraukin áhersla á heilsugæslu, forvarnir og endurhæfingu til að efla heilbrigði og draga úr þörf fyrir ótímabæra stofnanavist með tilheyrandi kostnaði, en sömuleiðis með tilheyrandi áhrifum á líf einstaklinganna. Það er auðvelt að taka undir áherslur verkefnisstjórnarinnar og þær eiga góðan samhljóm með samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að málefnum aldraðra.

Núna liggur fyrir hjá okkur að rýna í tillögur starfshópsins. Við birtum þær og kölluðum eftir umræðu um niðurstöðurnar og um hugmyndir um stefnumótun. Þarna eru metnaðarfullar og góðar tillögur sem er mikilvægt innlegg. Þarna eru góðar hugmyndir sem ég held að verði árangursríkar til að efla og bæta þjónustu við aldraða.

Ég get nú ekki svarað öllum spurningum sem til mín hefur verið beint, en ég mun gera mitt besta til þess að vera sá eða í að minnsta einn þeirra sem geta ýtt hlutunum áfram vegna þess að málefni eldri borgara eru vissulega málefni okkar allra og þau eru að þróast mjög hratt. Það er mikilvægt að við tökum á þessum málefnum í ríku samráði með notendunum eða með eldri borgurum sjálfum. Það vilja allir geta bjargað sér sjálfir og séð um sig sjálfir, hvort sem eru ungir eða aldnir. Við eigum að gera okkar besta til þess að hjálpa fólki til þess til þess að halda heilsu, til þess að njóta hreyfingar, njóta góðrar næringar, njóta góðs félagslífs (Forseti hringir.) o.s.frv., en við þurfum líka að tryggja á sama tíma að við grípum þá sem missa heilsuna og eiga við sjúkdóma að stríða. (Forseti hringir.) En ég vil þakka kærlega fyrir frábæra umræðu og vonast til þess að geta endurtekið þennan leik sem fyrst.