146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

aðgerðir á kvennadeildum.

229. mál
[17:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um aðgerðir á kvennadeildum. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls og spyrja eftir þessum mikilvæga þætti heilbrigðisþjónustunnar.

Eins og hv. þingmaður rakti í lok ræðu sinnar er spurt í fyrsta lagi hvort ráðherra telji rétt að hefja átak í að stytta biðlista eftir aðgerðum á kvennadeildum og vísar til þingsályktunartillögu um styttingu biðlista á kvennadeildum og sé svo, hvenær ráðherra hyggist stytta biðlista eftir aðgerðum. Síðan í öðru lagi hvort við hyggjumst bregðast við ályktun Kvenfélagasamband Íslands um mikilvægi þess að hefja átak til að stytta biðlista og fjölga aðgerðum á kvennadeildum. Eins og hv. þingmaður benti á er nú að nokkru leyti búið að svara þessari spurningu. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda og Kvenfélagasambandi Íslands að biðtími eftir aðgerðum á grindarbotnslíffærum kvenna hefur verið of langur. Það hlýtur að hafa veruleg áhrif á lífsgæði þeirra. Ég lýsi því strax yfir, eins og hefur komið fram, að ég vil gera mitt besta til að stytta þennan biðtíma eftir aðgerðum og stytta hann verulega. Þess vegna eru þær aðgerðir meðal þeirra aðgerða sem voru sérstaklega tilteknar í svokölluðu biðlistaátaki, þ.e. átaki með sérstakri fjárveitingu frá Alþingi til að stytta biðlista.

Það var ákveðið að átakið næði til áranna 2016–2018 með fjölgun aðgerða fyrir 840 millj. kr. samtals. Meginmarkmið átaksins er að stytta bið eftir aðgerðum niður í þrjá mánuði eða 90 daga á þeim tíma sem átakið stendur yfir en embætti landlæknis telur þann biðtíma vera ásættanlegan.

Það er unnið að markmiðinu með aukinni mönnun, með uppbyggingu á aðstöðu, með kaupum á tækjabúnaði og nýtingu á umframafkastagetu þar sem hún er til staðar. Að nokkru leyti munum við líka nota reynsluna frá því í fyrra með því að hvetja Landspítalann sem skiljanlega ber hitann og þungann af átakinu og aðrar heilbrigðisstofnanir, m.a. Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og Sjúkrahúsið á Akureyri, til aukinnar samvinnu og jafnvel til þess að framkvæma aðgerðir á öðrum sjúkrahúsum í samvinnu við þær heilbrigðisstofnanir eftir því sem möguleiki er, bæði til að nýta betur aðstöðu og mannskap en ekki síður til þess að geta boðið fólki upp á þjónustu nær heimabyggð.

Í samantekt sem embætti landlæknis gaf út þann 10. mars sl. kemur skýrt fram að verulegur árangur varð af átakinu á árinu 2016 hvað varðar styttingu biðlista í þeim aðgerðum sem þá var lögð áhersla á. Við undirbúning átaksins núna 2017 var að ráðgjöf embættis landlæknis ákveðið að vinna áfram sérstaklega að styttingu biðlista sömu fjögurra aðgerðaflokka; augasteina- og liðskiptaaðgerðum auk hjarta- og kransæðamyndatöku, en auk þess að fjölga aðgerðum á grindarholslíffærum kvenna og legnámsaðgerðum væri fjölgað.

Samkvæmt tilvitnaðri samantekt embættis landlæknis eru 278 konur núna á biðlista eftir völdum aðgerðum á grindarholslíffærum. 75% þeirra hafa beðið lengur en 90 daga sem við teljum óásættanlegt.

Frá 1. febrúar 2016 til 31. janúar 2017 voru hins vegar gerðar samtals 512 aðgerðir á Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

Eftir legnámsaðgerð bíða 195 konur og 62% þeirra hafa beðið lengur en 90 daga. Samanlagður aðgerðafjöldi á sömu stofnunum á framangreindu tímabili, þ.e. frá febrúar 2016 til 31. janúar 2017, voru 399 aðgerðir.

Með þessu átaki sem við erum að hefja núna gerum við okkur vonir um að biðtími kvenna ætti að verða innan ásættanlegra marka fyrir lok átaksins. Ég veit ekki hvort það næst fyrir lok árs en við vonumst alla vega til þess.

Í þriðja lagi, og ég skal reyna að tala mjög hratt, er spurt hvort ráðherra telji mögulegt að nýta auðar skurðstofur og sjúkrarými. Ég er nú búinn að svara því að einhverju leyti. Við mælumst til slíkrar sameiginlegrar þátttöku Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana við þær sex heilbrigðisstofnanir sem starfa utan höfuðborgarsvæðisins til þess til að nýta betur mannafla, tæki og húsnæði og komast nær sjúklingunum þar sem þeir búa. (Forseti hringir.) Ég bind miklar vonir við þetta átak og kem kannski aðeins inn á það í seinni ræðu.