146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

aðgerðir á kvennadeildum.

229. mál
[17:22]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að vekja athygli á þessu mjög svo mikilvæga máli. Sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir mjög greinargóða og skýra yfirferð. Það er gott að heyra að ráðherra hafi áhuga á málinu og vilji gera betur.

Ég vil bæta aðeins við umræðuna varðandi þriðju spurningu hv. þingmanns um nýtingu á auðum skurðstofum og sjúkrarýmum á landsbyggðinni. Ég heyri að ráðherra er mjög opinn fyrir þeim möguleika, þ.e. að nýta svokölluð Kragasjúkrahús betur og jafnvel fleiri stofnanir sem hafa aðstöðu upp á að bjóða. Þannig að ég er þá þar af leiðandi orðin nokkuð bjartsýn á það að tvær ónotaðar skurðstofur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja komist brátt í notkun, hvort sem verði fyrir aðgerðir á kvennadeildum eða annars konar aðgerðir. Stofurnar eru ónotaðar, hafa staðið auðar í átta ár, búnar fullkomnum tækjum og tilbúnar til notkunar fyrir allt mögulegt sem þörf er á.