146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

aðgerðir á kvennadeildum.

229. mál
[17:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir mjög greinargóð svör. Mig langar líka að þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu fyrir þátttökuna. Það er rétt sem hefur komið fram hér, m.a. hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, að það hefur verið of langur biðtími eftir aðgerðum sem þessum. Í samtölum mínum við fagfólk í greininni hefur fagfólk einmitt ítrekað bent á að aðgerðir sem þessar hafi orðið út undan þegar ráðist hefur verið í fyrri átök í að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu. Ég fagna því verulega að þær séu teknar með inn í það átak sem um ræðir.

Mig langar líka að segja að í fyrirspurn sem ég lagði fram á hv. Alþingi á síðasta kjörtímabili kom fram að kvennadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi væri mjög öflug í því að framkvæma þær aðgerðir sem við ræðum hér og skaraði í rauninni fram úr miðað við mannafla og aðstöðu í fjölda aðgerða, ef maður tæki það. Ég vona svo sannarlega að okkur takist sem fyrst að stytta þennan biðtíma.

Mig langar örstutt í lokin að nefna það sem kom fram í ræðu áðan og fyrr í dag um hlutfallslega meiri hækkun sem mun verða á heimsóknum til kvensjúkdómafræðinga. Það voru alla vega ábendingar til hv. þingmanna um hlutfallslega meiri hækkanir til þeirra sem þurfa að fara til kvensjúkdómafræðinga og bið ég hæstv. heilbrigðisráðherra að ræða það.