146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

heilbrigðisáætlun.

230. mál
[17:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum okkar hv. þingmanna Framsóknarflokksins er þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun forgangsmál okkar á þessum þingvetri. Ég sem fyrsti flutningsmaður málsins mælti fyrir málinu þann 31. janúar sl. og málið hefur verið til efnislegrar vinnslu innan hv. velferðarnefndar Alþingis. Samkvæmt tillögunni er lagt til að hæstv. heilbrigðisráðherra vinni að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland og samkvæmt tillögunni skal vinna heilbrigðisáætlunina í samráði við fagfólk í heilbrigðisgreinum, því það er fagfólkið sem þekkir hvað best til í greininni. Einnig skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga, en það er að mati okkar flutningsmanna tillögunnar mjög mikilvægt, því nú í dag eru heilbrigðisstofnanir hér á landi sem sinna heilu landsfjórðungunum og oft er um langan og erfiðan veg um að fara milli stofnana. Samkvæmt tillögunni skal einnig taka tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi á Landspítala. Þessi heilbrigðisáætlun yrði lögð fyrir hv. Alþingi í desember 2017.

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu minni að framan þá gekk tillaga okkar hv. þingmanna í Framsóknarflokknum til efnislegrar vinnslu í hv. velferðarnefnd í lok janúar. Í vinnslu nefndarinnar hefur m.a. komið fram að nú þegar liggi drög að heilbrigðisáætlun hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Hins vegar kom fram gagnrýni á að sú áætlun væri ekki á þingmálaskrá hæstv. heilbrigðisráðherra nú, að ekki hefði verið haft nægilegt samráð við fagfólk í heilbrigðisgreinum við þá vinnu og mikil þörf væri á því og mikilvægt að horfa til þeirra þátta sem eru í tillögutextanum sem ég las upp hér áðan við gerð heilbrigðisáætlunar.

Það skiptir gríðarlega miklu máli upp á framgang málsins að vita hver afstaða hæstv. heilbrigðisráðherra er til þessa máls og lagði ég því fram þessa fyrirspurn og spyr hæstv. heilbrigðisráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Telur hann þörf á heilbrigðisáætlun fyrir landið, samanber þingsályktunartillögu hv. þingmanna Framsóknarflokksins um heilbrigðisáætlun?

2. Telur hæstv. ráðherra rétt að horft sé til landfræðilegra þátta vegna fjarlægða milli byggðarlaga, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða við gerð heilbrigðisáætlunar?

3. Hver er afstaða hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að nýta auð sjúkrarými á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala?

4. Telur hæstv. ráðherra mikilvægt að haft sé samráð við fagfólk í heilbrigðisstéttum við gerð áætlunarinnar?