146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

heilbrigðisáætlun.

230. mál
[17:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og fagna svörum hæstv. ráðherra. Ég hef þekkt hann lengi og af góðu einu en tel hann þó ekki það ofurmenni að hann sé á þessum dögum sínum í stóli ráðherra búinn að móta heilbrigðisáætlun eða stefnu fyrir íslensku þjóðina, annað væri nú. En ég fagna því sem hægt er að lesa úr orðum hæstv. ráðherra, að hafin sé vinna við það og ekki síður að það eigi að nýta þá vinnu sem áður hefur farið fram. Ég held að það hafi oft og tíðum verið dálítið vandamálið þegar nýir herrar koma inn í stólana að þá vilji þeir setja sitt mark á málaflokkinn, en ég fagna því að hér eigi allt að koma upp úr skúffunum og vera eigi samstarf og samráð. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að huga að því hvort ekki væri rétt að hafa jafnvel það samráð og samstarf þvert á flokka og jafnvel fyrr í ferlinu en oft og tíðum hefur verið (Forseti hringir.) þannig að við getum öll unnið saman að þessum mikilvæga málaflokki.