146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

heilbrigðisáætlun.

230. mál
[17:41]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er að mörgu að hyggja í heilbrigðismálum. Það sem ég kem til með að segja er kannski inni á verkefnalistanum eins og í umræðunum á undan. Mig langar að hnykkja á örfáum atriðum. Það er þetta með staðsetningu sjúkrabíla og fagfólks á milli heilbrigðisstofnana þar sem eru fjölsóttir ferðamannastaðir, eins og t.d. í Öræfum. Nú vitum við hvernig þetta mun verða í sumar. Það er samdóma álit allra sem koma að þessu að þetta sé eitt af því sem þurfi að hyggja mjög vandlega að, eins mönnun sjálfra sjúkrabifreiðanna þar sem eru óaðgengilegar vaktir undir miklu álagi.

Annað sem mér er mjög hugleikið er þessi sérhæfði öldrunarspítali, sem er Landakot, með mjög fjölþætta starfsemi. Þar er gríðarlegt álag á deildum. Þegar farið verður út í þessa heilbrigðisstefnu þarf að skoða mjög vandlega hvað þar á að vera og hvað ekki. Þar vil ég m.a. minna á að líknardeildin sem var þar var lögð niður og aðeins hluti hennar fluttur í Kópavog. (Forseti hringir.) Það er eitt af því sem þarf mjög vandlega að horfa til við gerð næstu heilbrigðisáætlunar.