146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

lyfjaskráning.

231. mál
[17:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Hv. þm. Smári McCarthy hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um skráningu í lyfjagagnagrunni landlæknis. Ég þakka kærlega fyrir fyrirspurnina.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður hvernig sé háttað villuprófun og almennri gæðavöktun á lyfjagagnagrunni embættis landlæknis. Til þess að svara þeirri spurningu, því að vissulega er ég ekki sérfræðingur sjálfur, hef ég fengið eftirfarandi upplýsingar frá embætti landlæknis:

Skipta má villuprófunum og gæðaeftirliti í þrjá hluta. Í fyrsta lagi er um að ræða vöktun og eftirlit með stoðskrám lyfjagagnagrunns. Fyrir hvern lyfseðil sem berst í lyfjagagnagrunn eru lýðfræðilegar upplýsingar um viðkomandi notanda sóttar úr þjóðskrá, upplýsingar um ávísandi lækni eru fengnar úr starfslyfjaskrá embættis landlæknis auk þess sem gildi um daglega skammta, svokallað DDD, eru fengin úr lyfjaverðskrá.

Í öðru lagi er um að ræða vöktun og eftirlit með innsetningu gagna og utanumhald heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir þjónustu við sjúklinga. Eftirlit embættis landlæknis byggir á því að tölur séu réttar í grunninum. Gerðar eru athugasemdir við ávísanir lækna og beðið um skýringar á ávísunum sem eru á skjön við reglugerðir, klínískar leiðbeiningar og sérlyfjaskrá. Hin viðamikla notkun á gögnum af hálfu lækna og sjúklinga felur í sér mikla rýni og kröfu um áreiðanleika gagna og því má segja að þessi mikla notkun sé ákveðin gæðavöktun á grunninum í sjálfu sér.

Í þriðja lagi eru reglubundnar villuprófanir og gæðaúttektir embættis landlæknis. Hjá embættinu eru reglulega gerðar úttektir á áreiðanleika gagna í lyfjagagnagrunninum þar sem sölutölur Lyfjastofnunar og ávísanir sömu lyfja í öðrum löndum eru notaðar til samanburðar. Þá fara reglulega fram gæðapróf með keyrslum sem hannaðar hafa verið til að finna möguleg frávik sem tengjast villum í færsluskráningum hjá læknum eða í apótekum. Reglulega fer fram gæðavöktun á því hvort gildi um daglega skammta, aftur þessi DDD, gildi í lyfjaverðskrá, þ.e. stoðskrá grunnsins og séu rétt miðuð við uppgefin gildi frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Þetta er reglulega yfirfarið.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hvaða skýringar séu á 10.000 taflna ofskráningu og ávísunum á amfetamínsúlfat í lyfjagagnagrunni embættis landlæknis á tímabilinu september 2015 til mars 2016, sem voru síðar innkallaðar í mars 2016. Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis kom upp villa í mars árið 2016 þegar í ljós kom að mistök höfðu orðið við skráningu ávísandi læknis í tengslum við forritun rafrænna skeyta um lyfjaskammtanir frá tilteknum skömmtunaraðilum. Þessi villa olli því að færslur um lyfjanotkun sjúklinganna voru skráðar á ranga lækna. Ekkert virðist benda til að ofskráning sé í grunni eftir að forritun var lagfærð.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hvaða skýringar séu á því að embætti landlæknis lokaði málinu haustið 2016 með 1.985 taflna ofskráningu enn óútskýrða. Því er til að svara að hér var ekki um að ræða villu eða mistalningu í grunninum heldur feil í samanburði og töflurnar 1.985 afgreiddar á öðru vörunúmeri. Því var málinu lokið.

Í fjórða lagi er spurt hvort frekari of- eða vanskráningar séu enn óútskýrðar hjá embætti landlæknis. Ef svo sé, hvert sé umfang þeirra og um hvaða lyf sé að ræða. Svarið er einfalt: Nei, það hafa engar frekari óútskýrðar of- eða vanskráningar komið fram.

Eftir því sem pappírslyfseðlum hefur fækkað, og þar með innslætti annarra en lækna sem gefa út lyfseðlana, má gera ráð fyrir að mögulegum innsláttarvillum í lyfjaverslunum hafi einnig fækkað. Rafrænir lyfseðlar voru árið 2016 70% af öllum ávísuðum lyfseðlum, en hlutfall þeirra hefur verið að aukast. Flestir lyfseðlar koma þess vegna úr rafrænum skráningarkerfum í heilbrigðisþjónustunni, þ.e. frá rafrænum lyfseðlum lækna og rafrænum lyfjaafgreiðslum í lyfjaverslunum. Afgreiðsla lyfjaávísana af fagfólki, bæði læknum og lyfjafræðingum, er hluti gæðavöktunar og villuprófana á þeim gögnum sem fara í lyfjagagnagrunn. Til að tryggja að gögn séu rétt skráð hafa verið settir varnaglar eða villuprófanir í skráningarkerfin til að takmarka möguleika á að rangar upplýsingar fari inn í grunn. Dæmi um slíkt er að ekki er hægt að skrá ávísanir á lyf sem ekki eru með tiltekið vörunúmer.

Lyfjagagnagrunnur landlæknis hefur frá upphafi verið í daglegri notkun við lyfjaeftirlit og mikil samskipti eru við lækna sem byggjast á gögnunum úr grunninum. Eftirlitið byggir á því að tölur séu réttar í grunninum, því að gerðar eru athugasemdir við ávísanir lækna og beðið um skýringar á ávísunum sem eru á skjön við reglugerðir, klínískar leiðbeiningar og sérlyfjaskrá. Auk þess nota núna yfir þúsund læknar lyfjagagnagrunninn til uppflettinga á lyfjasögu skjólstæðinga sinna í hverjum mánuði. Læknar geta því bæði farið yfir lyfjaávísanir skjólstæðinga sinna í grunninum, gefið út nýja lyfseðla og borið ávísanir í lyfjagagnagrunni saman við sjúkraskrárfærslur. Þá hafa sjúklingar aðgang að sínum ávísunum í gegnum heilsuveruna, (Forseti hringir.) heilsuvera.is. Þessi mikla notkun á gögnum felur í sér mikla rýni og kröfu um áreiðanleika gagna. Því má segja að notkunin sé gæðavöktun á grunninum. Ef ávísanir (Forseti hringir.) eru skoðaðir í grunni er hægt að sjá norrænt vörunúmer á lyfseðli og norrænt númer á afgreiðslu sem fylgja (Forseti hringir.) hverri færslu. Mörg dæmi eru um færslu (Forseti hringir.) þar sem gefinn er út lyfseðill á eitt vörunúmer en svo afgreitt á öðru (Forseti hringir.) og telst það eðlilegt.