146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

bann við kjarnorkuvopnum.

53. mál
[18:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og sérstaklega hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni. Auðvitað er þetta mjög mikilvægt mál. Þetta er mál allra eins og fram hefur komið hjá hv. þingmönnum sem hér tóku til máls. En ég held að við verðum að horfast í augu við það að það er eitt að hafa viljann að vopni og annað hvað er raunhæft til að ná árangri. Það er alveg rétt og það er það sem maður hefur stærstu áhyggjurnar af að löndunum er að fjölga sem búa yfir kjarnavopnum. Með fullri virðingu, ég vil ekki gera lítið úr því að menn komi saman og ræði þetta, alls ekki. En við vitum það alveg að ef við ætlum að ná árangri í því að fækka kjarnavopnum og sérstaklega koma í veg fyrir að þau fari í hendurnar á aðilum sem ég held að við séum sammála um að séu ekkert sérstaklega ábyrgir þarf því miður meira til en þessar ráðstefnur. Því miður.

Af því að menn nefndu NATO þá skulum við hafa hugfast að NATO er búið að fækka um 90% af sínum kjarnavopnum frá dögum kalda stríðsins. Sá árangur náðist og við skulum ekki gera lítið úr þeim árangri. Það er ástæða fyrir því að menn nefna Höfða sérstaklega. Það var sá fundur sem hafði gríðarlega mikil áhrif. Þá loksins sneru menn við þeirri þróun sem hafði verið til staðar og hófu að fækka kjarnorkuvopnum alveg gríðarlega mikið. Mér finnst ekki rétt, og ég vona að það hafi ekki verið ætlun hv. þingmanna og vil trúa að svo sé ekki, að ætla einhverjum í þessum sal eða einhverjum öðrum eitthvað annað en að vilja fækka og helst þurrka út kjarnorkuvopn. Það vilja allir. En við þurfum að hafa í huga að við búum í mannheimum. Síðan þurfum við að hugsa hvaða leiðir eru bestar til þess að við getum náð árangri, bæði varðandi fækkun kjarnavopna og líka til að halda friði í heiminum og halda niðri þeim aðilum sem hafa svo sannarlega sýnt fram á að eru vægast sagt óábyrgir í gerðum sínum.