146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

rannsókn á fangaflugi bandarískra yfirvalda um Ísland.

124. mál
[18:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Frú forseti. Þann 12. desember árið 2014 lýsti þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, því yfir að utanríkisráðuneytið væri að hefja rannsókn á því hvort Ísland hefði verið misnotað sem millilendingarstaður fyrir fangaflug bandarísku alríkisþjónustunnar á árunum 2001–2007. Sú sem hér stendur hafði strax áhyggjur af að sú rannsókn félli í sömu gryfju og síðasta rannsókn á því sama máli.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, setti fyrri skoðunina af stað sumarið 2007 í kjölfar þess að Ísland var nefnt sem lendingarstaður fangafluga í skýrslu Evrópuráðsþingsins um þátttöku evrópskra ríkisstjórna í fangaflugi og leynifangelsum Bandaríkjamanna. Rannsóknin var þó ekki vandaðri en svo að skýrsla starfshópsins staðfesti einungis það að flugvélar sem gætu hafa verið að stunda fangaflutninga á vegum CIA hefðu farið inn í íslenska lofthelgi og millilent á íslenskum flugvöllum, en höfundar skýrslunnar kváðust alls ekki geta sannreynt það.

Tilefni þess að þáverandi forsætisráðherra ákvað að setja af stað nýja rannsókn var að öldungadeild bandaríska þingsins gaf út skýrslu í desember 2014 sem sýndi fram á að pyndingar Bandaríkjamanna voru miklu verri en marga grunaði. Opinber útgáfa skýrslunnar sem útlistar hryllinginn sem framinn var í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum gefur ekki upplýsingar um þátttöku einstakra ríkisstjórna í stríðsglæpum þeirra vestra en þær má finna í óritskoðaðri útgáfu skýrslunnar. Utanríkisráðuneytið lýsti í kjölfarið yfir áætlun sinni um að óska aðgangs að óritskoðuðu útgáfunni eða hið minnsta þeim hluta er snýr að Íslandi, komi það fyrir í skýrslunni.

Þetta var árið 2014 og síðan hefur ekkert heyrst af fyrirhugaðri rannsókn utanríkisráðuneytisins um þetta mál. Málið er þó mjög mikilvægt. Það varðar mögulega aðkomu íslenskra ráðamanna að stríðsglæpum Bandaríkjamanna, mögulega aðild að stríðsglæpum sem sagt.

Það er af þeim sökum sem ég finn mig knúna til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra Guðlaug Þór Þórðarsson eftirfarandi spurninga:

Í fyrsta lagi: Fór fram ný rannsókn á því hvort Ísland hafi verið notað sem millilendingarstaður fyrir fangaflug bandarískra yfirvalda á árunum 2001–2007 í kjölfar útkomu skýrslu Bandaríkjaþings um yfirheyrsluaðferðir bandarísku leyniþjónustunnar yfir grunuðum hryðjuverkamönnum?

Í öðru lagi: Var farið fram á aðgang að óritskoðaðri skýrslu Bandaríkjaþings um yfirheyrsluaðferðir bandarísku leyniþjónustunnar yfir grunuðum hryðjuverkamönnum?

Í þriðja lagi: Hvaða upplýsingar fengust við fyrirspurn utanríkisráðuneytisins og hvar má nálgast þær?

Í fjórða lagi: Fór fram nánari rannsókn á millilendingum mögulegra fangaflugvéla bandarískra yfirvalda í kjölfar fyrirspurnar utanríkisráðuneytisins? Ef svo var: Hverjar voru niðurstöður hennar um aðkomu íslenskra yfirvalda og embættismanna að millilendingum fangaflugvéla á íslensku yfirráðarsvæði?