146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

gerð samnings um vegabréfsáritanafrelsi við Kósóvó.

168. mál
[18:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög gott svar. Það er áhugavert að heyra hvað þetta er komið langt á leið, þ.e. 93 skilyrði uppfyllt af 95. Það þýðir að þetta hlýtur að geta klárast innan árs eða eitthvað þannig. Mér þætti gaman að heyra frá ráðherra hvort hann hafi einhverja hugmynd um það hvaða tímabil við gætum verið að tala um. Er þetta ár? Er þetta minna en ár? Eru þetta fimm ár? Það er eitt.

Það er líka áhugavert að heyra um eflingu aðgerða gegn skipulagðri brotastarfsemi. Nú þekki ég svolítið til í Austur-Evrópu og hef sjálfur unnið við rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi þar og ýmsu slíku. Þar eru ansi mörg lönd sem hafa staðið sig afar illa í því að ná taumhaldi á skipulagðri brotastarfsemi. Flest þeirra eru einmitt með vegabréfaáritunarfrelsi við Schengen-svæðið. Það væri áhugavert að vita aðeins meira um það í hverju þessar tilteknu aðgerðir felast, auðvitað hlýtur það að ráða einhverju þar um.

Ég er alfarið sammála hæstv. ráðherra varðandi það að auðvitað skiptir máli að lönd sem fá aðgang að okkar svæði séu með öryggismál og mannréttindamál í fyrirrúmi. Það er auðvitað til góðs að við séum með skýr skilyrði og framfylgjum þeim. Það eykur líka getu þessara landa til að taka þátt í samstarfi á alþjóðagrundvelli.

Ég þakka svarið en hefði gaman af því að fá að vita meira um þessi tvö atriði.