146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

almenningssamgöngur.

142. mál
[18:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gaman að fara í svona munnlega fyrirspurn vegna þess að það er svo gaman að fá sjónarmið fleiri þingmanna. Ég þakka fyrir innlegg hv. þingmanna Kolbeins Óttarssonar Proppés og Bryndísar Haraldsdóttur. Þar kemur einmitt fram að mögulega er þörf á sérstöku frumvarpi um almenningssamgöngur og ég vona að hæstv. ráðherra taki það til greina og til frekari skoðunar.

Það frumvarp sem um ræðir, sem er til umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, hefur verið unnið í ágætu samkomulagi við sveitarfélögin en engu að síður hafa þó nokkrar umsagnir borist með gagnrýnum punktum varðandi það sem betur mætti fara. Mig langar til að nefna hér tvö atriði úr umsögn Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi: Annars vegar bendir sambandið á að bæta þurfi við heimild Samgöngustofu til að leggja stjórnvaldssektir á aðila ef brotið er gegn einkarétti. Það verði að vera skýr viðurlög sem hafi áþreifanlegar afleiðingar fyrir fólk ef brotið er gegn einkaréttinum. Annað sem kemur fram, sem er ákveðinn galli sem skýra þarf nánar, varðar svokallaða hringmiða. Það hafði ég til dæmis ekki hugsað út í, þ.e. þegar fólk kaupir sér hringmiða, sem er þá ferðalag með nokkrum viðkomustöðum, þarf að takmarka hvernig hringurinn er skilgreindur. Annars er einkaleyfi lítils virði og býður í raun upp á misnotkun ef þetta liggur ekki skýrt fyrir. Menn geta því farið fram hjá kerfinu með þessum hringmiðum. Ég vil að við skoðum það.

Ég náði því ekki alveg hjá hæstv. ráðherra, og bið hann um að svara því hvort hann er sammála því að tryggja þurfi að arðbærar leiðir séu hluti af leiðakerfi almenningssamgangna á vegum sveitarfélaga. Ég náði því ekki alveg í svari ráðherra hér áðan.