146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

framkvæmd þingsályktunartillögu um áningarstaði Vegagerðarinnar.

158. mál
[18:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í þessum fyrirspurnatíma um framkvæmd þingsályktunartillögu um áningarstaði Vegagerðarinnar. Þannig var að á 145. löggjafarþingi var lögð fram þingsályktunartillaga, af þeirri sem hér stendur ásamt fleiri þingmönnum, í því skyni að bregðast við ákveðnum og vaxandi vanda í ferðaþjónustunni. Sá vandi lýtur að því að á heilu landsvæðunum skortir algjörlega á salernisaðstöðu fyrir ferðamenn. Hugmyndin með þingsályktunartillögunni var að nýta þá innviði sem þegar eru fyrir hendi, t.d. við áningarstaði Vegagerðarinnar þar sem þegar er verið að tryggja útskot og skilti og því um líkt, og á sumum þeirra er meira að segja þegar um að ræða salernisaðstöðu, og þar með að tryggja ákveðinn þéttleika þeirrar þjónustu sem fram hefur komið í umræðum undanfarin misseri og ár að skortir verulega á í því hvernig við tökum á móti erlendum ferðamönnum og innlendum ekki síður.

Nú var það svo að við lok þings vorið 2016 varð það niðurstaða að afgreiða umrædda tillögu úr umhverfis- og samgöngunefnd þar sem hún þótti að mörgu leyti fanga það ástand vel og sýna skynsamleg viðbrögð við því, auk þess sem Vegagerðin kom á fund nefndarinnar og kvaðst sjá möguleika á því að vinna í anda tillögunnar, a.m.k. til bráðabirgða. Niðurstaðan varð sú að afgreiða ekki bara tillöguna úr nefndinni heldur jafnframt að afgreiða hana hér á þinginu með því að vísa vinnunni til ríkisstjórnarinnar í júnímánuði 2016.

Nú spyr ég hæstv. samgönguráðherra, sem hefur fengið ráðrúm til að leita upplýsinga í ráðuneyti sínu um afdrif þessarar tillögu, um það hver staðan málsins sé og hver staða vinnunnar sé í aðdraganda mesta ferðamannasumars sögunnar.