146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

framkvæmd þingsályktunartillögu um áningarstaði Vegagerðarinnar.

158. mál
[18:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Já, klósettmálið mikla, ég held að enginn vilji að við verðum í heimsfréttunum út af því sem því hefur fylgt. Það var þann 2. júní 2016 sem Alþingi ályktaði að fela innanríkisráðherra að skipa starfshóp um áningarstaði við þjóðvegi með það að markmiði að gera tillögu um uppbyggingu, hlutverk og þróun áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi, til að mynda salernisaðstöðu. Starfshópurinn skyldi einnig meta hvort fjölga bæri áningarstöðun, gera tillögur um forgangsröðun í uppbyggingu áningarstaða og meta kostnað við uppbygginguna. Uppbygging var fjármögnuð af fjárveitingu til þjónustu fram til ársins 2005. Eftir það hafa nýir áningarstaðir verið kostaðir af fjárveitingum til framkvæmda. Á sama tímabili hefur einnig verið veitt fjármagn í keðjunarstaði, ýmis bílastæði, vigtunarstaði, útskot vegna útsýnis eða náttúru sem kallað var eftir í auknum mæli.

Vegagerðin hefur víða komið upp áningarstöðum við þjóðvegi landsins. Alls eru um 500 áningarstaðir Vegagerðarinnar við þjóðvegi víðs vegar um landið, þar af eru tæplega 200 þar sem boðið er upp á einhvers konar aðstöðu eða þjónustu, svo sem upplýsingaskilti, nestisborð, ruslafötur. Á áningarstöðum Vegagerðarinnar hefur verið rekin salernisaðstaða á einum stað en hvergi annars staðar.

Í vegalögum er ekki ákvæði um að Vegagerðin skuli sjá um áningarstaði fyrir ferðamenn. Engu að síður og í samræmi við markmið Vegagerðarinnar um góða þjónustu við vegfarendur og umferðaröryggi hefur Vegagerðin talið sig hafa ákveðnar skyldur í þeim efnum. Því hefur stofnunin gert áningarstaði víða við vegi landsins, vegfarendum til hagsbóta. Starfshópur Vegagerðarinnar var skipaður á síðasta ári til að meta þörf fyrir úrbætur á áningarstöðum. Að mati hans þarf að bæta aðstöðu á flestum áningarstöðum Vegagerðarinnar. Það þarf að endurnýja upplýsingaskilti, koma fyrir borðum og bekkjum, byggja skjólveggi, leiktæki, aðstöðu fyrir hjólreiðafólk og svo má lengi telja.

Ætla má að kostnaður við hvern þeirra áningarstaða þar sem boðið er upp á þjónustu eða aðstöðu gæti verið að meðaltali um 2,5 milljónir, því er heildarkostnaður um 500 milljónir fyrir helstu staði.

Á undanförnum árum hefur verið leitast við að meta þörf fyrir áningarstaði. Hafa m.a. staðkunnugir veitt upplýsingar um staði sem eru vinsælir hjá ferðamönnum. Þá hefur fólk í ferðaþjónustu aðstoðað við að kortleggja þá staði þar sem ferðamenn vilja stöðva til myndatöku. Á mörgum staðanna eru útskot eða áningarstaður fyrir hendi. Á grundvelli þessara upplýsinga má fá grófa hugmynd um fjölda áningarstaða sem bæta þyrfti við. Um 150–200 staði gæti verið að ræða og þá er fyrst og fremst verið að horfa til staða þar sem varasamt er að stöðva vegna umferðar. Merkja þarf þau útskot sérstaklega. Má reikna með að þetta geti orðið heildarkostnaður upp á um 700 millj. kr.

Starfshópur Vegagerðarinnar hefur sérstaklega skoðað þörf fyrir salernisaðstöðu og sorphirðu á áningarstöðum. Með stórauknum ferðamannastraumi eykst þörfin fyrir snyrtiaðstöðu og ruslafötur á áningarstöðum sem kallar á daglega þjónustu og eftirlit. Fram hafa komið ábendingar um að loka þurfi einhverjum áningarstöðum vegna óþrifnaðar. Því hefur verið ráðist í að meta og skipuleggja þörfina fyrir salerni og finna út heppilega staðsetningu. Við greiningarvinnuna var fyrst og fremst horft til að leita lausna fyrir áningarstaði Vegagerðarinnar. Verkfræðistofan EFLA hlaut tvívegis styrk til að meta þessa þörf, fyrst í upplýsingaöflun, en að því verki loknu var veittur styrkur til að gera tillögur um hvar væri helst þörf fyrir salerni. Þá skyldi EFLA taka við tillögum um lausnir og meta gróflega kostnað. Niðurstaða verkefnisins er sú að á 40 áningarstöðum sé brýn þörf fyrir salerni.

Í vinnu innanríkisráðuneytis og Vegagerðar um forgangsröðun brýnna verkefna fyrir komandi sumar undir stjórn Stjórnstöðvar ferðamála er gerð tillaga að því að koma upp færanlegum salernum á brýnustu stöðum þar sem lengst er á milli þjónustustöðva. Kostnaður við slíkt verkefni er áætlaður a.m.k. 5 milljónir á hvern stað og síðar meir að fenginni reynslu yrði komið fyrir varanlegri lausnum þar sem þess er þörf með góðri aðstöðu, rotþróm og tilheyrandi búnaði í daglegri þjónustu. Þar sem slíkt verkefni rúmast ekki, hvorki innan lagaheimilda Vegagerðarinnar né fjárveitinga hennar er ljóst að verkefnið þarf að fjármagna úr sjóðum til uppbyggingar fyrir ferðamenn. Rétt er að undirstrika að Vegagerðin er ekki í stakk búin til að reka áningarstaðina svo að sómi sé að að óbreyttu. Það kemur einnig inn í vetrarumferðin vegna verkefnisins Ísland – allt árið sem skapað hefur þörf fyrir vetrarþjónustu á útskotum og áningarstöðum.

Virðulegur forseti. Þetta er það sem er verið að bregðast við. Já, af því spurt var, það er verið að bregðast við til bráðabirgða að mínu mati, en það er verið að bregðast við á ýmsum stöðum. Greiningin hefur farið fram. Ég held að (Forseti hringir.) ekkert okkar vilji hafa þá umfjöllun sem hefur verið um þessi mál með sama hætti og við höfum upplifað áður.