146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

framkvæmd þingsályktunartillögu um áningarstaði Vegagerðarinnar.

158. mál
[19:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mjög brýnt af fenginni reynslu að bregðast við sem fyrst. Það hefur verið rætt mikið á vettvangi stjórnstöðvar ferðamála sem hefur tekið þátt í þessari vinnu með að greina þetta og búa til ákveðinn forgangslista. Mat Vegagerðarinnar við því sem þarf að bregðast við í sumar er að það þurfi um 60 millj. kr. til vegútskota, salernismál samkvæmt aðgerðaplani Vegagerðar verði sirka 90 millj. kr. Má þá reikna með að það geti orðið á nálægt 20 stöðum.

Til viðbótar við þetta langar mig að nefna að við frumvarp um bílastæðagjöld, sem hér hefur verið lagt fram og gerir sveitarfélögum kleift að bregðast við uppbyggingu úti um allt land, bind ég miklar vonir. Ég held að þar muni batna mjög aðstaða til móttöku ferðamanna og að sveitarfélögin geti fengið eðlilegar tekjur til að standa undir þeim rekstri, en það hefur víða skort á að sveitarfélög hafi haft tekjur á móti þeim mikla kostnaði sem fylgir því að efla þjónustu við ferðamenn á þeirra svæðum.

Ég á von á því að málið fái farsællegan endi á þinginu núna á vordögum og ég veit að sveitarfélög eru þegar farin að undirbúa fyrstu skrefin í þessu. Það mun kalla á og leiða af sér mikla innviðaþjónustu. Við þurfum síðan að horfa til framtíðar. Þannig þarf þetta plagg að vera vakandi. Það kom einmitt fram í máli mínu áðan að Vegagerðin hefur horft sérstaklega til þess að setja þurfi niður varanlegri lausnir, sem eru þá opnar kannski drjúgan hluta ársins, a.m.k. sex mánuði á ári. Þá væri það með tilheyrandi rotþró og þeim kröfum sem við gerum til slíkrar (Forseti hringir.) varanlegrar þjónustu. Það hlýtur að vera framtíðin.