146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

vegarlagning um Teigsskóg.

182. mál
[19:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Lengi hefur verið beðið eftir vegargerð þarna fyrir vestan. Hún er orðin brýnni en nokkru sinni fyrr í ljósi öflugrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu þar sem miklir þungaflutningar fara um með þær afurðir sem þar eru framleiddar. Matsskýrsla milli Bjarkalundar og Skálaness í endanlegum búningi var formlega móttekin af Skipulagsstofnun 27. febrúar 2017 og eins og fram kom hjá hv. þingmanni er reiknað með því að Skipulagsstofnun skili af sér áliti á morgun. Þótt niðurstaða Skipulagsstofnunar verði jákvæð fyrir svokallaða Teigsskógsleið er á þessu stigi erfitt að segja til um hvenær hægt verður að hefja framkvæmdir. Þegar niðurstaða Skipulagsstofnunar liggur fyrir eru næstu skref að sækja um framkvæmdarleyfi til Reykhólahrepps og hefja formlegar samningaumleitanir við landeigendur. Hugsanlegt er að veiting þess verði kærð. Fari svo er óljóst um framhaldið. Hversu langan tíma tekur að semja við landeigendur er einnig erfitt að segja til um. Vegagerðin telur sig síðan þurfa einn til þrjá mánuði til að hafa útboðsgögn tilbúin.

Það er spurt, verði niðurstöður matsskýrslunnar neikvæðar, hvort til greina komi að skipta verkinu upp. Í matsskýrslu, sem nú liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun, er gert ráð fyrir fimm mismunandi valkostum. Vegagerðin leggur til sem fyrsta valkost leið ÞH, eða svokallaða Teigsskógsleið. Verði sú leið einhverra hluta vegna ekki fær þarf að taka ákvörðun um næsta valkost. Alls er óvíst hver sá valkostur verður, en umrædd þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar fellur eingöngu að þremur af þessum fimm leiðum.

Eins og fram kom samþykkti ríkisstjórnin síðastliðinn föstudag aukafjárveitingu til vegframkvæmda upp að 1.200 millj. kr. á árinu. Heildarkostnaður við veginn um Gufudalssveit eða Teigsskóg er áætlaður um 6 milljarðar kr. Við reiknum með því að á árinu 2017 fáist framkvæmdarleyfi og að hafnar verði framkvæmdir fyrir 200 millj. kr. þannig að hægt verði að bjóða út fyrsta verkþáttinn, skapa aðstöðu fyrir verktaka og gera skarð í gegnum Teigsskóg og aka með fyllingarefni út í firðina.

Varðandi frekari fjármögnun munum við líta til afgreiðslu fjárlaga og nýrrar samgönguáætlunar sem við reiknum með að leggja fram á Alþingi í lok þessa árs eða í byrjun þess næsta.

Það er alveg ljóst að hér er um að ræða eitt af forgangsmálum í samgöngukerfi okkar. Ég hef sagt að við munum leita allra leiða til að hraða framkvæmdum og við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þeirra fyrir íbúa þarna og ekki síður þann aukna þrýsting sem myndast vegna mikillar uppbyggingar í atvinnulífinu. Hitt er svo annað mál að verkefnin eru víða og þau eru mjög stór. Við þekkjum öll þá sorglegu sögu, þ.e. afleiðingar þess að við höfum ekki ráðist í frekari framkvæmdir hér í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en þau tíðu slys sem við höfum orðið vitni að eru dæmi um það. Þess vegna erum við að láta skoða í ráðuneytinu hvort við gætum mögulega tekið þessar fjárfreku framkvæmdir út fyrir sviga með því að leita annarra leiða við fjármögnun þeirra, en í heildina má reikna með að þetta séu verkefni sem geti numið allt að 100 milljörðum kr. og jafnvel meira. Það kemur í ljós í þeirri vinnu sem er í gangi núna, við að ná utan um þetta, en fyrsti áfangi hennar liggur fyrir á vordögum.

Þá eigum við eftir öll hin verkefnin, virðulegur forseti, sem eru út um hinar dreifðu byggðir og reyndar hér á höfuðborgarsvæðinu líka. Til að nefna dæmi er áætlað að fullnaðarfrágangur við veginn um Skógarströnd, sem er nánast algjörlega óboðlegur, kosti um 6 milljarða kr., Teigsskógur, eins og áður hefur komið fram, er 6 milljarðar. Við erum að byggja Dýrafjarðargöng, þangað fara 3,5 milljarðar á ári næstu árin. Reikna má með því að vegur yfir Dynjandisheiði, sem er eiginlega hluti af Dýrafjarðargöngum, kosti 3 til 4 milljarða, ég ætla að skjóta á það. Síðan eigum við eftir Dettifossveg, sem er mikill þrýstingur á. Hann er um 1,5 milljarðar. Síðan eigum við eftir Hornafjarðarfljótið sem er um 4 milljarðar. Svo eigum við eftir Berufjarðarbotninn sem er rúmur milljarður. Nú hef ég bara talið upp örfá dæmi.

Virðulegur forseti. Þetta er fyrir utan mjög brýna þörf, sérstaklega hér í kringum ferðamannastaði á Suðurlandi, þar sem vegakerfið er algjörlega kolsprungið. Það er því ekki að tilefnislausu að ég hef farið fram á það að við leitum með opnum huga annarra leiða til að fara í þessi brýnu verkefni. Við vitum að þrátt fyrir að við höfum aukið útgjöld ríkissjóðs í metupphæðum á milli áranna 2016 og 2017, eða um rúmlega 50 milljarða, (Forseti hringir.) þá treysti þingið sér ekki, áður en þessi ríkisstjórn kom til starfa, til að setja í vegamálin nema sem nam 4,6 milljörðum. Við vitum (Forseti hringir.) að áfram verður mikill þrýstingur á fjármagn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og velferðarkerfið, þannig að það er í mörg horn að líta.