146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

vegarlagning um Teigsskóg.

182. mál
[19:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir skýr svör. Ég spyr: Hvernig er hægt að tala um að það eigi að forgangsraða til þessara mála þegar fjármagn var skorið niður í 200 milljónir, úr 1.200? Ég bara skil ekki hvernig það fer saman. Það er rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að verkefnin eru víða og þau eru mjög stór. Það er jafnframt rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að það er mjög brýnt að fara í þessar framkvæmdir, því að þarna fáum við stöðugt fréttir af því að fyrirtæki, sem eru í miklum og örum vexti á svæðinu, eigi í erfiðleikum með að fá aðföng fyrir sinn rekstur og koma verðmætum til útflutnings hér á suðvesturhorninu. Það er mjög alvarleg staða.

Ég hef áhyggjur af því hversu langan tíma það gæti tekið að fá þetta framkvæmdaleyfi. Ég veit að ég er ekki ein um að hafa áhyggjur af því að enn eigi eftir að fara í samninga við landeigendur. Ég veit að það er gremja gagnvart því á sunnanverðum Vestfjörðum að svo virðist vera að örfáir aðilar hafi getað stoppað þetta verkefni til fjölda ára. Höfum við ekki einhverja leið til að ýta þessu verkefni hraðar áfram? Við getum ekki látið enn eitt árið líða þar sem fólk situr og bíður niðurstöðu.

Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra aftur: Getur hann með einhverju móti stutt það að einhverjar úrbætur hefjist þarna í sumar og við áfangaskiptum verkefnum og tökum ákvörðun um hvaða leið við ætlum að fara?