146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

tryggingagjald.

221. mál
[19:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Oft kemur upp umræða um hvort tryggingagjald sé skynsamlegur skattur eða hver hann skuli vera og að hversu miklu leyti hann skaði mismunandi stór fyrirtæki. Það hefur ítrekað verið kallað eftir því að tryggingagjald lækki og ekki síst vegna tengingar þess við atvinnuleysi. Atvinnuleysi er afar lágt í augnablikinu, en skatturinn er ekki bara til kominn vegna atvinnuleysistryggingagjaldsins heldur eru þar aðrir þættir. Kallað hefur verið eftir því, m.a. frá Samtökum atvinnulífsins nú í byrjun febrúar. Þetta var til umræðu í aðdraganda kosninga. Oftast er nefnt að tryggingagjald leggist þyngra á smærri fyrirtæki og einyrkja. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Hyggja þarf sérstaklega að skattumhverfi einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með einföldun og lækkun tryggingagjalds í huga.“

Þetta er auðvitað umræða sem mun aldrei ljúka. Við munum sennilega vera að ræða þetta í pólitísku samhengi til eilífðar. Mér leikur svolítið forvitni á að vita hvað nákvæmlega stendur til hjá ríkisstjórninni. Því spyr ég hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Hyggst ráðherra leggja til að tryggingagjald verði lækkað? Stendur eitthvað í vegi fyrir því í augnablikinu að lækka megi tryggingagjald og þá hve mikið? Hefur tryggingagjald að mati ráðherrans meiri hlutfallsleg áhrif á rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja en á rekstur stærri fyrirtækja?

Þessar spurningar verða náttúrlega ekki til í tómarúmi. Það eru mismunandi meiningar um þessi atriði. En auðvitað er það hæstv. ráðherra að hafa skoðun á þessu hverju sinni. Ég er í rauninni svolítið að kalla eftir pólitísku svari frekar en hreinlega staðreyndalegu, vegna þess að þetta er atriði sem mun mótast mikið af stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta hefur ekki komið fram nægilega skýrt, að mér finnst, í fjármálastefnu sem er núna til umræðu og þess háttar. Ég hlakka til að heyra svörin.