146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

tryggingagjald.

221. mál
[19:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að brydda upp á umræðu um tryggingagjald. Í fyrirspurn sinni spyr hann hvort ég hyggist leggja til lækkun tryggingagjalds og hvort eitthvað standi í vegi fyrir því að svo verði gert.

Tryggingagjald hefur verið nokkuð til umræðu síðustu misserin eins og við er að búast miðað við stærð skattsins. Launagreiðendum ber að greiða hann af heildarlaunum launamanna sinna og skiptist skatturinn í almennt tryggingagjald og atvinnutryggingagjald. Á yfirstandandi rekstrarári er gjaldið 6,85% og hefur lækkað nokkuð undanfarin ár. Hæst fór gjaldið í 8,65% í ársbyrjun 2010. Það er með því lægra sem gerist meðal ríkra landa, en samanburður er ekki alltaf auðveldur vegna þess að misjafnt er hvað fjármagnað er með gjaldinu. Tryggingagjaldið hefur þann kost að vera sjálfvirkur sveiflujafnari að því marki sem hluti tryggingagjaldsins fer til að greiða atvinnuleysistryggingu. Sjóðurinn safnast upp þegar vel árar, greiðslur eru háar inn í sjóðinn og lágar út úr honum, en þegar gefur á bátinn greiðir sjóðurinn meira út. Þessi sveiflujöfnun er sjálfvirk að því leyti að það þarf ekki sérstaka ákvörðun yfirvalda til þess að þetta gerist. Lækkun tryggingagjalds þarf því að haldast í hendur við að sjóðirnir sem fjármagnaðir eru með gjaldinu standi af sér eðlilegar hagsveiflur.

Ef ætlunin er að hækka greiðslur í fæðingarorlofi minnkar það svigrúmið fyrir lækkun tryggingagjalds að óbreyttu gjaldhlutfallinu og afleiðingin verður sú að fjármagna þarf stærri hluta almannatryggingakerfisins með almennum skatttekjum, t.d. virðisaukaskatti.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að huga þurfi sérstaklega að skattumhverfi einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með einföldun og lækkun tryggingagjalds í huga. Einnig segir að hækka skuli greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi.

Svarið við meginspurningu hv. þingmanns er það að ríkisstjórnin stefnir að lækkun tryggingagjalds á kjörtímabilinu. Nákvæm tímasetning mun ráðast af aðstæðum í þeim málaflokkum sem gjaldið fjármagnar. Þeir eru sem fyrr segir Atvinnuleysistryggingasjóður, VIRK Starfsendurhæfingarsjóður, Fæðingarorlofssjóður, framlag til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða og loks framlag til lífeyris- og tryggingasjóðs almannatrygginga. Sem kunnugt er hefur þessi síðasti hluti hækkað mikið að undanförnu vegna hækkana á bótum almannatrygginga til samræmis við lágmarkslaun.

Að síðustu spyr hv. þingmaður hvort tryggingagjald hafi meiri hlutfallsleg áhrif á rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja en á rekstur stærri fyrirtækja. Stutta svarið við því er: Já. En þar skiptir þó máli á hvaða mælikvarða stærð fyrirtækja er metin. Einn gæti til dæmis verið heildarálögur skatta á fyrirtæki eins og þær birtast í álagningarskrám ríkisskattstjóra ár hvert. Þar er fyrst og fremst um að ræða tryggingagjald og tekjuskatt á hagnað fyrirtækja auk ýmissa smærri skatta.

Sérfræðingar ráðuneytisins skoðuðu heildarálögur á fyrirtæki á árinu 2016 vegna rekstrarársins 2015 eftir álagningu opinberra gjalda. Niðurstöður sýna að hjá minnstu fyrirtækjunum eru meira en 90% álagðra gjalda tryggingagjald, en hlutfallið lækkar niður í 40% hjá stærsta tíundarhluta íslenskra fyrirtækja. Rétt er þó að hafa í huga að mælikvarði sem þessi er ekki einhlítur, en gefur ákveðna vísbendingu um hlutfall launakostnaðar hjá fyrirtækjunum.

Frú forseti. Þegar rýnt er nánar í ársreikning einstakra fyrirtækja sést að hjá smærri fyrirtækjunum er launakostnaðurinn langstærsti kostnaðarliðurinn, en hjá þeim stærri vegur annar rekstrarkostnaður, eins og stjórnarkostnaður, markaðs- og auglýsingakostnaður og ýmis skrifstofukostnaður, hlutfallslega mun þyngra en launin. Sérfræðingar ráðuneytisins hafa þegar hafið frekari greiningu á tryggingagjaldsstofninum eftir atvinnugreinum og stærð fyrirtækja, m.a. með tilliti til veltu, heildarkostnaðar, rekstrarkostnaðar, launakostnaðar og fjölda ársverka. Þegar þeirri vinnu er lokið, sem væntanlega verður í haust, ætti ráðherra að geta svarað fyrirspyrjanda með mun nákvæmari hætti en nú er unnt, en almenna svarið verður án efa það sama og áður, þ.e. já. Lítil og meðalstór fyrirtæki munu hagnast hlutfallslega meira á lækkun tryggingagjalds en önnur.