146. löggjafarþing — 48. fundur,  27. mars 2017.

tryggingagjald.

221. mál
[19:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þær tölfræðilegu upplýsingar sem ég boðaði hér verða mjög áhugaverðar þegar þær liggja fyrir.

Varðandi framhaldsspurningu hans um þrepaskiptingu skattsins þá verð ég að játa það að ég er svolítið efins í því efni vegna þess að yfirleitt held ég að það sé best að skattar séu einfaldir og það sé ein skattprósenta sem gildi almennt. Ég held því við verðum að nálgast það mál með svolítið öðrum hætti.

Varðandi nýsköpunarfyrirtækin tel ég rétt að benda á að þar erum við með aðra hvata, þ.e. við erum með endurgreiðslu á þeim fjármunum sem fara til rannsókna og þróunar. Þar erum við með endurgreiðslu upp á 20% sem vissulega er hvetjandi fyrir fyrirtæki sem eru að vinna á því sviði. Ég held að það sé kannski heppilegra fyrirkomulag sem er á því, en hins vegar er það efni í aðra umræðu að þar þurfum við að athuga hvernig lögin voru sett fram og þar þarf ýmislegt að laga. Við munum og erum að vinna að því í ráðuneytinu einmitt þessar vikurnar að skoða þau mál. En ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir að hafa vakið máls á þessu áhugaverða efni.