146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

arsenikmengun á Reykjanesi.

[13:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég get ekki skilið það öðruvísi en að það sé komið upp neyðarástand á Reykjanesi þar sem arsenikmengun frá United Silicon-verksmiðjunni hefur mælst umfram umhverfismörk og í tuttuguföldu magni þess sem áætlað var. Það hefur komið fram í fréttum RÚV að Kristín Ólafsdóttir, dósent í eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands, hefur sagt að það sé full ástæða til að íbúar hafi áhyggjur af arsenikmengun sem fer yfir viðmiðunarmörk, arsenik sé krabbameinsvaldandi, arsenikmengun í andrúmslofti valdi aðallega lungnakrabbameini en líka húðkrabbameini og það sé full ástæða til að taka slíka mengun alvarlega.

Nú eru fréttir af niðurstöðum nefndar um sóttvarnir þar sem kemur fram að íbúum á svæðinu stafi ekki bráð hætta af losun frá verksmiðju United Silicon og lítur þess vegna út fyrir að verksmiðjunni verði ekki lokað og að heilsa íbúa svæðisins fái ekki að njóta vafans.

Frú forseti. Er ekki full ástæða til að umhverfisráðherra mæti á þingið og upplýsi þingheim og almenning um stöðu mála? Hvers vegna í ósköpunum þarf ég að fá fréttir af framþróun svo mikilvægs máls sem þessa í gegnum fjölmiðla? Þetta er fullkomlega óásættanlegt.