146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Síðastliðinn sunnudag var endursýndur í sjónvarpinu þátturinn Veðrabrigði sem dregur upp raunsanna, dapurlega en einlæga mynd af litlu sjávarþorpi á Vestfjörðum. Einn daginn ákvað kvótaeigandi þorpsins að selja og fara, sem hann gerir, borgar sínar skuldir og hverfur í burtu með ríflegan sjóð til eigin nota á öðrum stað. Eftir sátu íbúarnir sem unnið höfðu hjá honum, sótt fisk á miðin og unnið í fiski í landi.

Þetta er gömul saga og ný og í þessari mynd opinberast sú kerfismartröð sem við viljum breyta en íhaldsöflin reyna með öllu móti að verja með kjafti og klóm. Þetta er ekki einasta dæmið, það eru líka Ísafjörður, Þingeyri, Djúpivogur, Húsavík og Þorlákshöfn og nú blasir við hamfaraástand á Akranesi þar sem rótgróið útgerðarfyrirtæki á staðnum er í uppnámi, fyrirtæki sem átti 21.000 tonn í bolfiski þegar sameinast var Granda árið 2004.

HB Grandi hefur, eins og fram hefur komið, tilkynnt starfsmönnum sínum, um 100 konum fyrst og fremst, að hann ætli að loka, skella í lás og fara með alla bolfisksvinnslu burtu. Ámóta mörg afleidd störf hverfa líka. Og það má engan tíma missa, þetta var tilkynnt í gær og ganga skal helst frá málinu á morgun. Þetta eru nöturlegar kveðjur. Ekkert er hugsað um afdrif tryggra og reyndra starfsmanna. Atvinnuleysi bíður flestra. Þess á milli gumar HB Grandi af mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar.

Þetta er samfélagslegt ábyrgðarleysi. Hér ráða ferðinni einhver önnur öfl og ekki öfl skynsemi, sanngirni eða réttlætis. Það áfall sem nú ríður yfir á að ýta við þegnum landsins, það er verið að véla með sameiginlega auðlind. Hvenær ætla stjórnvöld að rakna úr rotinu og átta sig á eyðileggingarmætti og ofbeldi þessa kerfis? Þetta eina fyrirtæki græddi meira en 3 milljarða í fyrra, svo það er ekki afkoman, en það er ekki nóg, eigendurnir vilja meira og þeir skeyta hvorki um skömm né heiður. Það þykir gamaldags.

Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Ég brýni ríkisstjórnina til að fara strax í endurskoðun kvótakerfisins, sem hún hefur lofað, svo hindra megi frekari eyðileggingu atvinnulífs og mannlífs vítt og breitt um landið. Því munu jafnaðarmenn leggja lið gegn ójafnaðarmönnum sem hér eru að verki.