146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í gær birtist mjög góð greining á ummælum hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson sem hún lét falla í Silfrinu um helgina. Með leyfi forseta:

„Áhugaverð er hún tilgátan sem Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, lýsti í Silfrinu um helgina sem ástæðu þess að Viðreisn hefur samkvæmt skoðanakönnunum nánast þurrkast út á þeim stutta tíma sem flokkurinn hefur verið í stjórn. Hanna Katrín telur stjórnarandstöðuna hafa lagt alla áherslu á að „heimfæra góðu verkin upp á Sjálfstæðisflokkinn og hefur náttúrulega einhvern veginn lagt áherslu á að gera hag hans mikinn þarna og að sama skapi draga úr störfum hinna stjórnarflokkanna.“

Leiðinlegur er sá vandi sem maður sjálfur á ekkert í. Slík vandamál er erfitt að leysa og því má segja að tilgáta Hönnu Katrínar feli í sér nokkra uppgjöf. Lausnin er einfaldlega að allir aðrir hagi sér betur, en ekki að Viðreisn skoði sinn þátt í því sem hratt stefnir í heimsmet í óvinsældum.

Sjálfur tel ég ástæðu óvinsælda flokkanna talsvert einfaldari en þó er kannski ekki alveg hlaupið að því að leysa málið. Samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins búa fyrir það fyrsta ekki við sömu tryggð og Valhöll. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn gekk til kosninga, ekki aðeins án umbóta heldur baðandi sig í eigin spillingu með Bjarna Benediktsson sem formann, máttu Viðreisn og Björt framtíð boða umbætur á sviði velferðar, stjórnsýslu, fiskveiðistjórnunar, jafnréttis, efnahagsstefnu, utanríkismála og stjórnmálasiðferðis. Kjósendum Sjálfstæðisflokks er hjartanlega sama um spillingu og staðfestu það svo sannarlega þegar þau kusu flokk með Bjarna í fararbroddi.“

Er þessi grein mjög löng og rituð af Atla Þór Fanndal.

Mig langar í ljósi þessa að spyrja hv. þingmann hvað það sé nákvæmlega sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum gert til að ausa lofi á Sjálfstæðisflokkinn. Hvað ætlar hv. þingmaður að gera til að bregðast við (Forseti hringir.) því vantrausti sem hefur komið fram í skoðanakönnunum undanfarið, annað en að beina fingri að einhverjum öðrum?