146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það eru alvarlegar fréttir sem berast ofan af Akranesi um að meira en 100 manns missi vinnuna í bolfiskvinnslu þar. HB Grandi hefur rekið þar fyrirtæki undanfarin ár en rætur þess fyrirtækis eru allt frá árin 1906. Þarna er fólk sem hefur tekið þátt í því að byggja upp þetta fyrirtæki í gegnum árin og horfir svo upp á að það blasi við að því verði öllu sagt upp og það stefni í atvinnuleysi.

Það er auðvitað óboðlegt gagnvart þessu fólki, sem hefur skapað þann arð sem fyrirtæki eins og HB Grandi hefur verið að raka inn til sín á undanförnum árum. Fyrirtækið hefur haft í hagnað yfir 40 milljarða á síðustu árum og í fyrra var fyrirtækið með yfir 3 milljarða í hagnað og greiddi til eigenda sinna tæpa 2 milljarða. Þetta fyrirtæki telur sig núna vera þess megnugt að segja bara bless við þetta fólk, setja það út á guð og gaddinn og skilja bæjarfélagið eftir í sárum, bæjarfélag sem hefur leitast við að byggja upp góða aðstöðu fyrir þetta fyrirtæki sem ætlaði sér að hafa þarna öfluga bolfiskvinnslu ásamt annarri tegund af vinnslu til framtíðar.

Svona blasir þetta við og menn geta ekki endalaust sagt að þetta sé ekki kvótakerfinu að kenna. Kvótakerfið virkar eins og blóðtappi sem hrekkur út um allt samfélagið. Einn daginn er það Flateyri, annan daginn Þingeyri og síðan eru það Þorlákshöfn, Vestmannaeyjar, Akranes — það veit enginn hvar þessi blóðtappi lendir næst. Svo koma menn, eins og hv. þm. Teitur Björn Einarsson, og tala um að lækka veiðigjöld á Granda, að það þurfi að bregðast við og lækka veiðigjöld á Granda. Hvers konar brandari er það að vera að tala um þetta í þessu samhengi? (BjG: Milljarðaarðgreiðslur fram undan.) (Forseti hringir.) Og milljarðaarðgreiðslur fram undan.

Ég held að stjórnvöld verði að horfast í augu (Forseti hringir.) við það að kvótakerfið hefur skapað atvinnuóöryggi (Forseti hringir.)heillar stéttar sem vinnur í kringum sjávarútveg og það er ekki boðlegt.(Gripið fram í.)