146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við sem töluðum fyrir uppbyggingu United Silicon í Helguvík og fögnuðum 500 millj. kr. fjárfestingarsamningi við félagið í apríl 2014 trúðum loforðum fyrirtækisins um fjölbreytt og vel launuð störf, góðan rekstur í sátt við lög og reglur. Okkur er illa brugðið. Mengunarvandamál, ófullkomin verksmiðja og svikin loforð í launum einkenna upphaf starfseminnar.

Fjárfestingarsamningurinn tryggði félaginu að hámarki 15% tekjuskatt, 50% afslátt af almennu tryggingagjaldi, hluta af fasteignaskatti 50% lægri en áskilið hámarkshlutfall, gjaldhlutfall gatnagerðargjalds 30% lægra en almenn gjaldskrá Reykjanesbæjar. Þá á félagið rétt á þjálfunaraðstoð starfsmanna að upphæð 2 milljónir evra eða samtals rúmar 700 milljónir í heildarstuðning.

Virðulegi forseti. Ég er einn þeirra sem samþykktu þennan gjörning. Með þessari eftirgjöf gjalda hefur fyrirtækið töluverða yfirburði á vinnumarkaði. En hvernig er hún nýtt? Í stað stóriðjusamninga álveranna greiðir United Silicon starfsmönnum sínum 1.470 kr. á klst. í dagvinnu eða undir lágmarkstekjum fyrir fullt starf og 2.646 kr. í yfirvinnu, 16 klst. á dag eða 80% af grunntaxtanum sem er undir tekjuviðmiðum. Til að komast upp fyrir lágmarkstekjur dagvinnu greiðir fyrirtækið 65 þús. kr. í bónus á dagvinnu á mánuði. Þá setur fyrirtækið upp vinnuplan með viðveru starfsmanna í 12 klukkustundir. Þeir setja ekki á eðlilegar vaktir því þá verður fyrirtækið að semja við verkalýðsfélögin um vaktafyrirkomulag sem kallar á hærri launagreiðslur

Með þessu launafyrirkomulagi greiðir United Silicon starfsmönnum sínum 450 þús. kr. á mánuði en sambærileg laun eru 600–700 þús. kr. í álverum.

Ég sem þingmaður vil biðja þjóðina afsökunar á því að hafa greitt götu fyrirtækis sem fengið hefur hundruð milljóna króna stuðning skattgreiðenda til að byggja upp rekstur en greiðir starfsmönnum sínum laun sem eru grundvölluð á taxta sem er (Forseti hringir.) undir tekjuviðmiðum í landinu. Þá hefur fyrirtækið lítil eða engin tök á þessari mengun frá rekstri fyrirtækisins í Helguvík, er í alls konar málarekstri við verkalýðsforystuna, fyrirtæki og bæjarfélagið (Forseti hringir.) og vinnur hvorki með né fyrir samfélagið. (Forseti hringir.) Fyrirtæki sem þannig kemur fram við starfsmenn sína, samfélagið og umhverfið í trássi við gefin loforð á sér ekki bjarta framtíð.