146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir tækifæri til þess að segja frá upplifun minni í fjárlaganefnd fyrir jólin við óvenjulegar aðstæður. Áskorunin og markmiðið var að ná fram sátt og sameiginlegri niðurstöðu í fjárlaganefndarvinnunni og með þær áherslur að breytingartillögurnar myndu ríma vel við liðna kosningabaráttu og að mínu mati tókst það. Í upphafi var himinn og haf á milli flokka og mér leist ekki vel á að fara í gríðarlega mikla útgjaldaaukningu vegna þess að það er mín sýn að við eigum ekki að taka vinkilbeygju í hvert sinn sem ný ríkisstjórn tekur við. Það skapar ójafnvægi, uppsveiflu, hrun og ástand eins og við sjáum nú á Akranesi. Ég hef ekki trú á vinkilbeygjum. Sveitarfélögin gera það ekki. Það líður a.m.k. ár þar til það hefur raunveruleg áhrif á þau störf. Það er mín sýn og sú sýn mín rímar við markmið fjármálaáætlunar þar sem eru samtvinnaðar stefnumarkandi áætlanir og fjármálaáætlanir á skilvirkari hátt en áður. Breytt verklag sem eftirleiðis verður ástundað, sem ég fagna, kallar á ný vinnubrögð með aðkomu fleiri fastanefnda. Til að tryggja góð vinnubrögð og aukin gæði ætlar Alþingi að standa fyrir fræðslu, sem mér finnst nauðsynlegt að nefna í þessu samhengi, um stefnumarkandi áætlanagerð fyrir þingmenn.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu mínu, það kemur reyndar alveg skýrt fram, eru áherslur Bjartrar framtíðar í frumvarpinu á að bregðast við bráðavanda í heilbrigðiskerfinu. Þingmenn þurftu að koma sér saman um málamiðlun og horfa til þess hvar skóinn kreppti helst og til þeirra verkefna sem brýnast var að ráðast í strax. Ég tel að þetta hafi tekist og ég er sátt við niðurstöðuna við þessar aðstæður.

Til þess að ítreka það þá vill Björt framtíð gera áætlanir til framtíðar, ekki bregðast við vandanum þegar hann er kominn upp. Við þurfum að snúa við þeirri venju. Við viljum reyna að hætta að standa skyndilega frammi fyrir risastórum vandamálum sem virðast óleysanleg. Við viljum sjá þau fyrir. Þannig og aðeins þannig tökum við fulla ábyrgð á stjórn í efnahagsmálum þjóðarinnar.