146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur frumkvæði að mjög mikilvægri umræðu um gengisþróun og afkomu útflutningsgreina. Líklegast er þetta erfiðasta viðfangsefni í efnahagsmálum sem þjóðin fæst við þessi misserin. Fljótandi króna er tvíeggjað sverð. Sterk króna eykur kaupmátt almennings en veikir samkeppnisstöðu fyrirtækja sem keppa á alþjóðamarkaði. Með sama hætti hjálpar veik króna útflutningsatvinnugreinum en þrengir að kjörum þeirra sem fá laun sín greidd í krónum. Seðlabankinn lagði mat á jafnvægisraungengi í maí árið 2016, byggt á gögnum frá lokum árs 2015, og taldi það vera þegar gengisvísitala stæði í 89. Raungengi nú er hins vegar rétt undir 100. Í nýjustu útgáfu Peningamála kemur fram sú skoðun að jafnvægisraungengið hafi hækkað en ekki hversu mikið.

Aftur á móti er ljóst að raungengi krónunnar nú er mörgum útflutningsgreinum afar erfitt og við sjáum einmitt þessa dagana afleiðingar þess á afkomu stórs útgerðarfyrirtækis, HB Granda, sem vísar í sterkt gengi krónunnar til þess að útskýra endurskipulagningu á rekstrinum. Vitað er að styrking krónunnar á sama tíma og gengi breska pundsins veiktist er afar erfið fyrir bolfisksvinnsluna.

Minni aðilar í sjávarútvegi eru sérstaklega viðkvæmir fyrir þessari gengisstyrkingu og margir slíkir berjast í bökkum. Veiði mun almennt ekki aukast og þeir ráða ekki verði á mörkuðum. Auk útflutningsgreina hefur styrkingin áhrif á innlendar greinar sem eru í samkeppni við innflutning. Gengi krónunnar hækkaði nær samfleytt frá síðasta sumri fram í desember. Það endurspeglaði að mestu leyti gjaldeyrisinnstreymi vegna afgangs á viðskiptum við útlönd vegna aukins útflutnings, sérstaklega aukinna umsvifa í ferðaþjónustu, og bættra viðskiptakjara. Gengið hefur aftur á móti verið sveiflukennt frá byrjun desember. Það lækkaði fyrst líklega vegna minni gjaldeyristekna af völdum verkfalls sjómanna á sama tíma og árstíðabundin lægð er í gjaldeyristekjum af ferðaþjónustu og tengdum greinum í upphafi árs. Útstreymi á fjármagni vegna fjárfestingarheimilda lífeyrissjóða gæti átt hlut að máli. Gengið styrktist aftur u.þ.b. sem verkfallið leystist, en veiktist svo um 3–4% eftir að höftum var aflétt. Útflæði fjár hefur þó ekki verið verulegt hingað til.

Varðandi ruðningsáhrif er rétt að segja frá því að í fundaröð sem fjármálaráðuneytið hélt með sérfræðingum frá aðilum vinnumarkaðar og fjármálafyrirtækjum kom fram að gengisstyrkingin hefur haft neikvæð áhrif á margar greinar. Lítil og ung fyrirtæki sem eru að koma undir sig fótunum eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessari styrkingu. Þetta hefur verið kallað hollenska veikin. Hollendingar urðu fyrir því á sjöunda og áttunda áratugnum að mikil olíu- og gasvinnsla tók yfir efnahagsþróunina á þann hátt að gengi gyllinisins styrktist verulega. Það hafði þau áhrif að aðrir útflutningsatvinnuvegir réðu ekki við aðstæðurnar og misstu mikinn þrótt.

Hvað er til ráða? Höft hafa verið afnumin. Peningastefnunefnd eða nefnd um umgjörð peningastefnunnar hefur verið sett á fót með það að markmiði að leggja fram tillögur til stöðugra gengis. Stjórnvöld eru að skoða með lífeyrissjóðunum og öðrum sérfræðingum hvernig og hve hratt megi auka fjárfestingu sjóðanna erlendis. Fjármálastefna sem lögð hefur verið fyrir þingið gerir ráð fyrir hagstjórn sem skuli vinna gegn þenslu og þar með gengisstyrkingunni.

Frú forseti. Áhrifamesta aðgerðin til þess að lækka gengi krónunnar væri án efa lækkun vaxta Seðlabankans. Með lægri vöxtum innan lands væri hvati fjárfesta, einkum lífeyrissjóða, til að leita út fyrir landsteinana meiri en áður, auk þess sem slíkar fjárfestingar myndu dreifa áhættu af rekstri sjóðanna.

Viðreisn talaði, einn flokka, um peningamálin fyrir kosningarnar síðastliðið haust [Hlátur í þingsal.] — þetta er nú ekki gamanmál — og setti fram hugmyndir um myntráð. Það er lausn sem líta þarf sérstaklega til. Markmiðið er skýrt, miklar sveiflur á gengi og hátt vaxtastig eru skaðleg samfélaginu. Því miður eru engar skyndilausnir til í þessu máli. Peningastefnu þarf að fylgja eftir með aga í ríkisfjármálum. Aðgerðir þurfa að vera ígrundaðar, almennar og til langs tíma. Ríkisstjórnin hefur á sínum tveimur og hálfum mánuði hafið aðgerðir til að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra atvinnugreina og mun halda því áfram.