146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

gengisþróun og afkoma útflutningsgreina.

[14:18]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Þetta er mikilvægt mál. Gengi gjaldmiðilsins er og verður áhyggjuefni þar til komist verður að sátt um fyrirkomulag gjaldmiðilsmálum sem gagnast til framtíðar. Flöktið skaðar alla nema þá sem braska gagnvart stöðunni og innflytjendur sem útflytjendur ættu að geta komist að einhvers konar niðurstöðu sameiginlega um það hvar væri æskilegt að hafa gengið. Eins og við höfum séð hefur gríðarleg gengishækkun slæm áhrif á útflutningsiðnaðinn. Gríðarleg gengislækkun eða gengishrun, eins og við höfum oft séð áður, hefur líka skaðleg áhrif á almenning og innflutningsgreinar. Og peningastefna Íslands er í raun rót vandans. Peningastefna sem gengur út á að hunsa efnahagsleg sannindi, jafn fá og þau nú eru, er bara ekki góð. Seðlabankinn reynir fyrir sitt leyti af mjög veikum mætti að stýra genginu og það hefur ekki gengið rosalega vel. Það þarf önnur viðmið í þessu. Ég er algjörlega sammála hæstv. fjármálaráðherra að lækkun á stýrivöxtum er eitt lykilatriðanna þar.

Þriðja hornið í þessum þríhyrningi er framleiðsla. Við getum ekki aukið peningamagn í umferð og þar með jafnað út gengið án þess að auka verðbólgu, nema auðvitað með því að nota aukafjármagn til að auka framleiðslugetu. Þetta verður náttúrlega ekki útskýrt á þeim örfáu sekúndum sem ég á eftir, en við verðum að grundvalla þessa umræðu í því hvernig raunveruleikinn snýr. Það er ljóst að við getum í rauninni ekki hjálpað þeim fyrirtækjum sem eru í útflutningsiðnaði nema með því að fara að taka af alvöru á peningastefnu. Við getum ekki leyst þetta nema við leysum það strax. Við getum ekki verið að bíða eftir niðurstöðum nefndar um peningastefnu. (Forseti hringir.) Þetta er vandamál dagsins í dag. Við þurfum að leysa það núna.